Y firlýsing ríkisstjórnarinnar frá síðustu helgi um að hún muni beita sér fyrir því að tekjuskattur fyrirtækja lækki úr 18% í 15% á næsta ári er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni. Vissulega má færa fyrir því rök að fara ætti með skatthlutfallið enn neðar til að stuðla að bættri samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs en hvað sem því líður þarf enginn að efast um að hér er stigið skref sem um munar. Þessi aðgerð er líka sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess að hér er um að ræða fyrstu raunverulegu aðgerð þessarar ríkisstjórnar sem bendir til að hún meini eitthvað með þeim ummælum í stefnuyfirlýsingu sinni frá vordögum 2007 um að auka eigi samkeppnishæfni atvinnulífsins og að tryggja verði að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á. Fram að þessu hafa flest frumvörp ríkisstjórnarinnar sem á annað borð varða atvinnulífið fremur miðað að því að leggja á það auknar hömlur og þrengja svigrúm þeirra. Ekkert lát er á framlagningu lagafrumvarpa sem auka við reglubyrðina sem á fyrirtækjunum hvílir,flækja starfsumhverfið, draga úr svigrúmi þeirra, auka skriffinnsku og bæta við þann kostnað, sem þau bera af því að framfylgja lögum og reglum.
„Með öðrum orðum er viðurkennt, að verið er ganga lengra í að íþyngja íslenskum fyrirtækjum að þessu leyti heldur en íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til, þessi aukning reglubyrði er því alveg heimatilbúin og ekki hægt að kenna herrunum í Brussel um hana. Viðskiptaráðherrann, sem oftar en ekki þykist vera sérstakur vinur atvinnulífsins, ber fulla ábyrgð á þessari tillögugerð og í framhaldinu mun reyna á hvort alþingismenn eru tilbúnir að deila þeirra ábyrgð með honum.“ |
Fyrri ríkisstjórnir eru auðvitað ekki heldur saklausar af sambærilegri útþenslu reglugerðaríkisins. Á undanförnum árum hefur orðið gríðarlegur vöxtur í regluverki á ýmsum sviðum, svo sem í umhverfismálum, vinnumarkaðsmálum, neytendamálum, samkeppnismálum og svo má lengi telja. Oftar en ekki er afsökunin sú að verið sé að innleiða reglur Evrópusambandsins hér á landi, sem við séum skuldbundin til að gera á grundvelli samningsins um hið evrópska efnahagssvæði. Þegar grannt er skoðað kemur hins vegar ósjaldan í ljós, að laumað er með íþyngjandi reglum, sem ekki eiga sér þennan samevrópska uppruna. Eins er ekki óþekkt, að svigrúm, sem finna má í ýmsum tilskipunum ESB, sé ekki nýtt og reglurnar þar af leiðandi innleiddar með þungbærari hætti fyrir atvinnulífið en þörf krefur. Hvort tveggja er slæmt, sérstaklega ef ríkisstjórnir og stjórnarmeirihluti á þingi hverju sinni telur sér trú um að stefna beri að því að samkeppnisskilyrði hér eigi að vera í fremstu röð. Reglubyrði er nefnilega einn af mikilvægustu þáttunum sem hafa áhrif á rekstrarskilyrði og samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Staðan hér á landi hefur verið betri hér á landi en víða í Evrópu að þessu leyti en það forskot minnkar auðvitað eftir því sem aukið er við regluverkið hér á landi. Í því ljósi er auðvitað sérstaklega alvarlegt þegar gengið er lengra í reglusetningunni en kröfurnar sem til okkar eru gerðar samkvæmt EES-samningnum kveða á um.
Dæmi um þetta síðastnefnda er frumvarp sem viðskiptaráðherra hefur nýlega lagt fram á þingi um breytingar á samkeppnislögum. Þar eru boðaðar margvíslegar breytingar á ákvæðum laganna um samruna fyrirtækja og eru þær flestar til óþurftar. Vert er að geta þess að þar eru einnig jákvæð atriði eins og hækkun á fjárhæðarmörkum varðandi veltu þeirra fyrirtækja sem tilkynna þurfa samruna til Samkeppniseftirlitsins en þar er um að ræða löngu tímabæra breytingu á fullkomlega úreltum viðmiðum. Þar er að sönnu gengið alltof skammt en engu að síður er hér um að ræða skref í rétta átt. Aðrar þær breytingar sem boðaðar eru með frumvarpinu eru hins vegar því marki brenndar, að frumvarpshöfundar virðast telja það nánast glæpsamlegt athæfi að menn vilji sameina fyrirtæki. Hindrunum í því sambandi er fjölgað og úrræðum samkeppnisyfirvalda til að koma í veg fyrir samruna, bæði fyrirfram og eftir á, er fjölgað til muna. Matskenndum heimildum samkeppnisyfirvalda er fjölgað til muna og aðstandendur fyrirtækja á markaði munu enn frekar en áður eiga það undir geðþóttaákvörðunum opinberra embættismanna hvort eða með hvaða skilyrðum þeim verður heimilað að sameinast öðrum fyrirtækjum. Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram að með því sé verið að samræma íslenskar reglur þeim reglum sem gilda um samruna innan Evrópusambandsins, en um leið tekið fram að slík samræming sé ekki byggð á skuldbindingum okkar samkvæmt EES. Með öðrum orðum er viðurkennt, að verið er ganga lengra í að íþyngja íslenskum fyrirtækjum að þessu leyti heldur en íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til, þessi aukning reglubyrði er því alveg heimatilbúin og ekki hægt að kenna herrunum í Brussel um hana. Viðskiptaráðherrann, sem oftar en ekki þykist vera sérstakur vinur atvinnulífsins, ber fulla ábyrgð á þessari tillögugerð og í framhaldinu mun reyna á hvort alþingismenn eru tilbúnir að deila þeirra ábyrgð með honum.
Annað dæmi um fullkomlega heimatilbúna aukningu á reglubyrði og skriffinnsku er að finna í frumvarpi um jafnréttismál, sem nú er því sem næst komið í gegnum þingið. Þar er verið að stórauka kröfur um upplýsingagjöf og skýrslugerð af hálfu fyrirtækja og stífar reglur settar um heimildir jafnréttisyfirvalda til að knýja fram aðgerðir af þeirra hálfu með ýmsum valdboðum og viðurlögum. Frumvarpið virðist raunar hafa lagast örlítið í meðförum þingnefndar er engu að síður er ljóst að það mun stórauka það umstang og fyrirhöfn sem stjórnendur fyrirtækja þurfa að leggja í á þessu sviði, um leið og aukið verður verulega við stjórnsýslu hins opinbera á þessu sviði. Báknið á sviði jafnréttisiðnaðarins mun bólgna verulega út af þessum sökum í afar nálægri framtíð.
Þeir þingmenn eru vissulega til sem reyna að sporna við þróun af þessu tagi í átt til meira íþyngjandi og fleiri lagareglna og aukinna valdboða af hálfu hins opinbera gagnvart atvinnulífinu. Hinir virðast þó fleiri sem láta sér vel líka og virðast ekki sjá neitt samhengi milli regluverksins annars vegar og samkeppnishæfra starfsskilyrða atvinnulífsins hins vegar. Salir alþingis og ráðherrabekkir ríkisstjórnarinnar eru því miður alltof fullir af fólki, sem er sannfært um að Það hafi bæði rétt og skyldu til að hafa vit fyrir öðrum borgurum þessa lands, ekki síst þeim vafasömu einstaklingum sem fara út í rekstur fyrirtækja.