I nnheimt fasteignagjöld í Reykjavík í fyrra voru um 13 milljarðar króna. Áætlanir REI-listans gerðu ráð fyrir að þau yrðu 17 milljarðar á þessu ári. Eftir að Sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon tóku við stjórnartaumum fyrir nokkrum dögum var ákveðið að lækka fasteignaskatt um 150 milljónir og er því gert ráð fyrir að fasteignagjöld í ár verði rétt tæpir 17 milljarðar. Ef hækkun fasteignagjalda hefði fylgt almennu neysluverði hefðu þau hækkað um um það bil 800 milljónir, farið úr 13 milljörðum í 13,8 milljarða. Hækkun umfram almennt verðlag er því rúmir þrír milljarðar. Meðfylgjandi mynd sýnir vel hversu skammt var gengið þegar álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði var lækkuð þótt allar lækkanir séu að sjálfsögðu vel þegnar. Borin eru saman fasteignagjöld 2007, gjöld miðað við vilja REI-listans og gjöld eins og þau voru ákvörðuð eftir valdaskiptin.
Hundrað daga vinstri stjórnin í borginni ætlaði að hækka fasteignagjöldin um 3.000 milljónir króna umfram verðlag. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. ákvað að hækka þau „aðeins“ um 2.850 milljónir. |
Ákvörðun núverandi meirihluta gæti þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að hann vilji færa skattbyrði til og nýta hækkun fasteignagjalda til að lækka aðra skatta. Seinni skýringin gæti verið sú að ætlunin sé að fylgja útgjalda- og skattpíningarstefnu. Þar til annað kemur í ljós er rétt að láta nýjan meirihluta njóta vafans og gera ráð fyrir að fyrri skýringin sé rétt. Þá gæti verið komið kjörið tækifæri til að lækka útsvarið sem Reykjavíkurlistinn hækkaði aftur og aftur og hafði skattalækkanir ríkisins þannig af borgarbúum. Útsvarið í Reykjavík er nú í lögbundnu hámarki 13,03% og er því ætlað að skila um 40 milljörðum í tekjur á þessu ári. Þeir rúmu þrír milljarðar sem hækkun fasteignagjalda umfram almennar verðlagshækkanir skila borginni nægja því til að lækka útsvar um rúmt prósentustig eða niður fyrir 12%. Með lækkun útsvars í 11,99% sýndi ný stjórn að hún ber hag borgarbúa raunverulega fyrir brjósti.