Helgarsprokið 6. janúar 2008

6. tbl. 12. árg.

Á næstu vikum fá Reykvíkingar áþreifanlega sönnun þess að til valda er komin vinstri stjórn í Reykjavík. Þá verða álagningarseðlar vegna fasteignagjalda sendir fasteignaeigendum. Við það tækifæri munu eflaust margir senda manni ársins á rás 2 Ríkisútvarpsins Svandísi Svavarsdóttur hlý hugskeyti. Einnig væri við hæfi að hugsa hlýtt til forystu Sjálfstæðisflokksins sem með stjórnkænsku sinni hefur leitt vinstrimenn til valda bæði í Reykjavík og í ríkisstjórn. Á báðum stöðum starfa nú stjórnir sem berjast með oddi og egg gegn hverri hugmynd til skattalækkunar en fagna ákaflega auknum tekjum og kætast yfir möguleikum til að stinga dúsum upp í hvern þrýstihópinn á fætur öðrum á kostnað skattborgara.

En þar sem álagningarseðlar fasteignagjalda hafa ekki enn verið sendir út vill Vefþjóðviljinn draga fram með skýrum hætti hvað þeir munu bera með sér, með von um að einhverjir vakni af værum blundi og auknar álögur á borgarbúa verði teknar til endurskoðunar. Það ætti ekki að vera sjálfgefið að hið opinbera taki til sín meira og meira af ráðstöfunarfé borgaranna.

„Hækkunin er sexföld á við 2,5% verðbólgumarkmið, sem ríkisstjórnin setur Seðlabankanum. Undanfarið hafa almennar verðlagshækkanir verið 5-7% og hækkun Reykjavíkurborgar á fasteignagjöldunum því tvöföld til þreföld á við hækkanir á ýmsum neysluvörum sem mönnum hafa þótt keyra úr hófi fram. Skattgreiðendur í Reykjavík geta því um leið og þeir ákveða hvaða útgjöld þeir vilji draga saman til að greiða fyrir hækkun fasteignagjalda hlakkað til að greiða hærri afborganir af lánum, sem þeir hafa tekið vegna húsnæðis síns og bundin eru vísitölu neysluverðs.“

Fasteignagjöld í Reykjavík eru fasteignaskattur, lóðarleiga, holræsagjald, vatnsgjald og sorphirðugjald. Fasteignaskattur og holræsagjald eru hlutfall af fasteignamati eigna, lóðarleiga er hlutfall af mati lóða, vatnsgjald á íbúðarhúsnæði er fast gjald að viðbættu gjaldi fyrir hvern fermetra húsnæðis og sorphirðugjald er fast gjald fyrir hverja sorptunnu sem losuð er. Óþarfi er að taka fram að öll hækka þessi gjöld ríflega. Vatnsgjald fylgir vísitölu byggingarkostnaðar og hækkar því um 6,3% sem er nokkuð umfram almennar verðlagshækkanir. Lóðarleiga, fasteignaskattur og holræsagjald fylgja hækkun á fasteignamati sem fyrir íbúðarhúsnæði í Reykjavík er 12%. Hækkanir framangreindra gjalda eru hins vegar hóflegar samanborið við hækkun sorphirðugjalds sem milli áranna 2007 og 2008 hækkar um 32,5%!

Til þess að glöggva sig á áhrifum hækkananna er gott að skoða raunverulegt dæmi. Um er að ræða dæmigerða þriggja herbergja 91 fermetra íbúð miðsvæðis í Reykjavík sem hefur afnot af einni sorptunnu. Fasteignamat húss var 15,6 milljónir króna og lóðar 4,46 milljónir króna í árslok 2006 en í árslok 2007 var húsmat 17,45 milljónir króna og lóðarmat 5 milljónir króna. Eftirfarandi tafla sýnir innheimt fasteignagjöld vegna íbúðarinnar 2007 og svo áætlun fyrir árið 2008 miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir:

  2007 2008
Fasteignaskattur 45.135 50.513
Lóðarleiga 3.568 4.000
Holræsagjald 21.063 23.573
Vatnsgjald 14.727 15.662
Sorphirðugjald 12.300 16.300
Samtals 96.793 110.045

Hækkun fasteignagjalda á þessa tilteknu íbúð nemur því tæpum 14% milli áranna 2007 og 2008. Þeir sem njóta minni hækkunar launa, eða annars ráðstöfunarfjár, en 14% þurfa því að draga saman önnur útgjöld til að standa straum af auknum álögum Reykjavíkurborgar.

Aukin útgjöld heimila vegna fasteignagjalda hafa hafa frekari neikvæð áhrif á ráðstöfunarfé heimila vegna þess að eins og önnur neysluútgjöld hafa þau áhrif á vísitölu neysluverðs. Aðrir þættir fasteignagjalda en fasteignaskatturinn eru teknir með í reikninginn þegar vísitalan er reiknuð. Í dæminu hér að framan er hækkun þessara útgjalda 15%. Annað hvort hafa forsvarsmenn Reykjavíkurborgar, og þeirra sveitarfélaga sem hegða sér með líkum hætti, ekki frétt af tilraunum til þess að koma böndum á verðbólgu eða þeir gefa þeim einfaldlega langt nef. Hækkunin er sexföld á við 2,5% verðbólgumarkmið, sem ríkisstjórnin setur Seðlabankanum. Undanfarið hafa almennar verðlagshækkanir verið 5-7% og hækkun Reykjavíkurborgar á fasteignagjöldunum því tvöföld til þreföld á við hækkanir á ýmsum neysluvörum sem mönnum hafa þótt keyra úr hófi fram. Skattgreiðendur í Reykjavík geta því um leið og þeir ákveða hvaða útgjöld þeir vilji draga saman til að greiða fyrir hækkun fasteignagjalda hlakkað til að greiða hærri afborganir af lánum, sem þeir hafa tekið vegna húsnæðis síns og bundin eru vísitölu neysluverðs.

En dæmið hér að framan segir því miður ekki nema hálfa söguna af skattpíningarstefnu REI-listans. Milli áranna 2007 og 2008 hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík um 12%en mat atvinnuhúsnæðis mun meira, eða um 20%. Á síðasta ári voru um þrír fjórðu hlutar innheimtra fasteignaskatta vegna atvinnuhúsnæðis. Því mun fasteignaskattur að meðaltali hækka um 18% í Reykjavík á þessu ári. Auk verðlagshækkunar hefur stofn fasteignaskatta stækkað vegna nýrra bygginga og endurbóta eldri og áætlar Reykjavíkurborg að sú aukning sé um 2%. Því má ætla að fasteignaskattur í Reykjavík hækki um u.þ.b. 20% milla áranna 2007 og 2008. Á árinu 2008 var skatturinn rúmir 9 milljarðar og hækkun skattanna því sennilega hátt í tveir milljarðar króna.

Sumir gætu ályktað að það væri hið besta mál að fasteignaskattar leggist af miklum þunga á atvinnustarfsemi, vegna þess að þar séu breiðu bökin. Fyrirtæki lifa hins vegar ekki í einangruðum heimi og þau verða með einhverjum hætti að greiða aukna skatta. Að mestu leyti eru þeir bornir af viðskiptavinum og starfsmönnum fyrirtækjanna. Íbúar Reykjavíkur greiða því þegar upp er staðið, með einum eða öðrum hætti aukna skatta sem stjórn borgarinnar kýs að leggja á. Sé hækkaðri heimtu fasteignaskatta jafnað niður á borgarbúa jafngildir hún um 60 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík. Rétt er að ítreka að þetta er eingöngu hækkun vegna fasteignaskattsins og eru önnur gjöld því ótalinn, má ætla að kostnaðarauki hverrar fjölskyldi vegna þeirra nemi tugum þúsunda að auki.

Í ljósi þess sem að framan greinir er með ólíkindum að fyrirhuguð hækkun fasteignaskatta hafi ekki vakið meiri athygli. Með henni hækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 14%. Áhrif gjaldahækkana til hækkunar neysluverðsvísitölu eru líklega um 15%, og innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hækka líklega um hátt í eitthundrað þúsund krónur á árinu á hverja fjölskyldu í borginni eða um 20%. Er ekki kominn tími til að einhver segi eitthvað?

Í dag eru fjögur þúsund dagar síðan Vefþjóðviljinn hóf göngu sína eins og sá atburður í janúar 1997 hefur verið nefndur neðanmáls hér á síðunni frá upphafi. Talan fjögur þúsund er hins vegar ekki mjög spennandi heldur frekar flöt og leiðinleg. Rómverjar töldu heldur ekki ástæðu til að telja hærra en 3999 því þeir áttu ekki tákn fyrir 5000 og þar með var engin leið að tákna 4000. Það eru ótrúleg örlög að vera ekki til því eitthvað sem kemur löngu síðar í röðinni er ekki til. Að nota MMMM hefði líka verið gegn grunnhugsun kerfisins.

En þar sem við erum stödd í póstmódernískum óveruleika, þar sem hlutirnir eru bara einhvern veginn, enginn munur á réttu og röngu og fólk tjáir sig helst með blaðri á vefsíðum og spjallrásum lýðnetsins, ætti að vera óhætt að segja um útgáfu Vefþjóðviljans fram til þessa:

MMMM.