Fimmtudagur 3. janúar 2008

3. tbl. 12. árg.

Þ að er ýmsar leiðir til að gera upp nýliðið ár. Það er skoðun margra að fjármagnstekjuskattur sé alltof lágur. Vinstri flokkarnir hafa til að mynda lagt fram ýmsar tillögur um að hækka hann á undanförnum árum. Eins og sést af þessum tveimur raunhæfu dæmum frá liðnu ári þegar verðbólga var 6% er ekki víst að finna megi mikið hærri skatt en þann sem tekinn er af minna en engu.

  • Tékkarreikningur sem bar 5% vexti og hafði að jafnaði 500 þúsund króna innistæðu. Raunávöxtun reikningsins var því neikvæð um 1% vegna verðbólgu. Af þessari neikvæðu raunávöxtun þarf eigandi reikningsins engu að síður að greiða 2.500 króna fjármagnstekjuskatt.
  • Hlutafélag féll í verði um 50% á árinu en hafði í ársbyrjun greitt ríflegan arð, 10% af markaðsvirði félagsins. Af þessum arði greiddi eigandi hlutfjár 10% fjármagnstekjuskatt en áður hafði hlutafélagið greitt 18%.

Það er án efa ánægjulegt að hafa greitt fjármagnstekjuskatt af fjárfestingu sem fallið hefur um nær 50% í verði. Og ef menn hafa teflt djarft og tekið lán fyrir slíkri fjárfestingu er hugsanlegt að einhverjir hafi á síðasta ári greitt fjármagnstekjuskatt af arði fjárfestingar sem gerði þá gjaldþrota.

Fjármagnstekjuskattinum (10%) er oft stillt upp með tekjuskatti einstaklinga (35,7%) og hrópað að þar sé skelfileg mismunun á ferð. Og því þurfi auðvitað að hækka fjármagnstekjuskattinn. Sjaldnar er minnst á hina leiðina til jöfnunar, sem er að lækka tekjuskattinn.

Það gleymist auðvitað í þessum samanburði að áður en arður er greiddur úr fyrirtækjum greiða þau 18% skatt af hagnaði. Það gleymist líka að einstaklingar hafa persónuafslátt þannig að tekjur undir 1,1 milljón á ári eru skattfrjálsar og allt að 8% tekna nýtur skattafrestunar ef þær eru lagðar í lífeyrissjóð. Þessi samanburður er því flóknari en oft er gefið í skyn í opinberri umræðu.