Á dögunum sagði Vefþjóðviljinn frá þeirri ánægjulegu ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness að ganga gegn sveitarstjórnarmannastraumnum og lækka útsvarshlutfallið sem bæjarbúum er gert að greiða. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Seltjarnarnes er ekki eina sveitarfélagið sem slíkt hefur ákveðið, því það hefur Kjósarhreppur einnig gert. Það er Vefþjóðviljanum að sjálfsögðu ánægjuefni að vekja athygli á þeirri ákvörðun. Þá er ástæða að ítreka hrós til forráðamanna Skorradalshrepps, Helgafellssveitar og Ásahrepps, sem enn sem fyrr taka einungis lágmarksútsvar af íbúunum. Tvö fyrstnefndu sveitarfélögin hafa þurft að berjast hart við ofríki sameiningarmanna, en hafa enn ekki látið í minni pokann. Heiður þeim.
Ráðamenn annarra sveitarfélaga eiga minni heiður skilinn. Af 79 sveitarfélögum munu 64 heimta hámarksútsvar af íbúunum á næsta ári, og auðvitað eru stærri sveitarfélögin ekkert skárri en þau minni. Hagkvæmni stærðarinnar, eins og mikið er talað um þegar reynt er að knýja sveitarfélög til sameiningar, skilar íbúnum að minnsta kosti ekki lægra útsvari. Og því miður dugði eina árið sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur honum ekki til að lækka útsvarið í höfuðborginni, sem var komið í hámark eftir tólf ára vinstristjórn.
Á undanförnum árum hefur alþingi jafnt og þétt lækkað tekjuskattshlutfallið sem rennur til ríkisins þótt þingið hafi snúið að þeirri braut um síðustu áramót þegar hlutfallið hækkaði um 1% frá áður lögfestri lækkun. Þó ýmsir hefðu viljað ganga lengra í tekjuskattslækkunum – og það hefði Vefþjóðviljinn vissulega viljað – þá hefur verið áberandi munur á skattastefnu ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár. Sveitarfélögin fara með útsvarið upp í topp, hefja svo ný verkefni og krefjast nýrra tekjustofna. Það er eitt brýnasta verkefni skattgreiðenda á næstu árum að þrýsta á um útsvarslækkanir og berjast gegn óþarfa eyðslu sveitarfélaganna.