Föstudagur 21. desember 2007

355. tbl. 11. árg.

K annski má segja að Morgunblaðið sé helsta málgang íslenskra vinstri manna um þessar mundir. Eins og vikið var að í gær er Vefþjóðviljinn ekki einn um að velta því fyrir sér.

Önnur blöð virðast til að mynda mun frjálslyndari en Morgunblaðið. Viðskiptablaðið, 24 stundir og Fréttablaðið hafa öll meiri áhuga á hagsmunum neytenda og skattgreiðenda en Morgunblaðið. Morgunblaðið leggur þar að auki sérstaka fæð á atvinnulífið í landinu..

Stór orð? Þarf ekki að styðja þau með dæmum?

Leitum ekki langt yfir skammt. Hver var boðskapur blaðanna í leiðurum gærdagsins?

Í gær voru Morgunblaðsmenn að skrifa trilljónasta leiðarann um mikilvægi þess að leggja sérstakan skatt á eina atvinnugrein; auðlindagjald á sjávarútveginn. Morgunblaðið vill þennan skatt hærri og meiri. Meira til ríkisins, minna til atvinnulífs og launþega.

Ólíkt leiðarahöfundum Morgunblaðsins hafði Björgvin Guðmundsson, sem skrifaði leiðara Fréttablaðsins í gær, ekki áhyggjur af því að skattar væru að lækka. Þvert á móti hvatti hann til skattalækkana. „Næsta skref hlýtur að vera að lækka álögur á einstakling. Þannig tryggjum við áfram aukna verðmætasköpun og betri lífsgæði allra…“.

Í leiðara Viðskiptablaðsins í gær var skrifað um aðhaldsleysi í fjárlögum og bent á að ríkisútgjöld hafi aukist um 90% frá árinu 2000 og ársverkum í dagvinnu fjölgað um ríflega þrjúþúsund eða um fjórðung. Viðskiptablaðið segir að skýringin á góðri afkomu ríkissjóðs er ekki mikið aðhald heldur miklar tekjur og hvetur til skattalækkana því þegar fjárhirslur ríkisins séu yfirfullar sé erfitt að neita þrýstihópum og sérhagsmuaöflum að aukið framlag.

Í 24 stundum skrifaði Ólafur Þ. Stephensen leiðara um mikilvægi þess að lækka tolla á innfluttum matvælum og vörugjöld á áfengi og eldsneyti. „Ríkisstjórninni er í lófa lagið að lækka vöruverð með breytingu á sköttum.“