Fimmtudagur 20. desember 2007

354. tbl. 11. árg.

Í síðustu viku komu Þjóðmál út, eins og sagt hefur verið frá. Í ritstjóraspjalli sínu kemur Jakob F. Ásgeirsson víða við að venju, en leiðari Þjóðmála er eitt bitastæðasta efnið sem borgaralegum áhugamönnum um þjóðmál býðst á prenti þessi misserin. Morgunblaðið orðið eins og það er orðið – og um hugmyndafræðilegt undanhald þess er fjallað í Þjóðmálum. Í leiðara sínum skrifar Jakob, sem sjálfur var lengi blaðamaður á Morgunblaðinu og skrifaði meðal annars vandaða ævisögu Valtýs Stefánssonar ritstjóra, mannsins sem framar öðrum skóp þá stöðu sem Morgunblaðið naut um áratugaskeið í huga þorra landsmanna:

Ekki þarf að lesa mikið í Morgunblaðinu nú um stundir til að sjá að blaðið hefur í veigamiklum atriðum horfið frá þeim gildum sem það áður stóð fyrir. Morgunblaðið er ekki lengur blað Valtýs Stefánssonar og Bjarna Benediktssonar. Þetta kemur glöggt fram þegar blaðamenn hins nýja Morgunblaðs tjá skoðanir sínar í blaðinu. Þeir virðast nánast undantekningarlaust vera sósíalistar af einhverju tagi. Blaðamennirnir virðast því flestir í andstöðu við hina frjálslyndu hefð blaðsins. Óhjákvæmilega dregur blaðið dám af þessu.

Lesbók Morgunblaðsins hefur verið gerð að vettvangi fyrir einhvers konar vinstri spekinga af því tagi sem skrifuðu ritdóma um bækurnar um kommúnismann og Maó. Þar vaða uppi ofstækisfullir sósíalistar, femínistar, póstmódernistar og umhverfisverndarsinnar. Gamalgrónir lesendur Morgunblaðsins eru margir hættir að fletta Lesbókinni.

Ofan í kaupið er einhvers konar Jekyll and Hyde yfirbragð á öllu ritstjórnarefni blaðsins. Ef farið er eitt skref til hægri eru undireins stigin tvö til vinstri. Um þetta mætti nefna mörg dæmi en hér skal aðeins bent á eitt. Á síðari árum hefur tæplega heyrst sú krafa um aukin ríkisútgjöld að Morgunblaðið hafi ekki tekið undir hana í tilfinningaþrungnum leiðurum. En síðan eru skrifaðir harðir leiðarar þar sem ríkisstjórnin er atyrt fyrir að sýna ekki nægilegt aðhald í ríkisfjármálum!

Í eina tíð var hægt að bera málflutning Morgunblaðsins saman við blöð á borð við bresku stórblöðin Daily Telegraph og The Times. Morgunblaðið var fullsæmt af þeim samanburði. En það þarf ekki lengi að lesa þau blöð nú á dögum til að sjá að það er himinn og haf milli málflutnings þeirra og hinna nýju Morgunblaðs-manna.

Þetta er rétt athugað hjá Jakobi og Vefþjóðviljinn hefur áður reifað svipuð sjónarmið. Gallinn við Morgunblaðið er ekki að þar reyni menn ekki að vanda sig og vera sanngjarnir í fréttaflutningi. Það leiðinlega við Morgunblaðið er hversu mjög og hratt það hefur hrunið til vinstri á síðustu árum. Sérstaklega er ofstækisfullur femínismi þess þreytandi en blaðið finnur sér þó fleiri rétttrúnaðarmál til að sleppa sér yfir. Eitt kastið kom yfir blaðið á dögunum þegar íslensk kona lenti í vandræðum á bandarískum flugvelli þar sem hún hafði verið staðin að því að brjóta lög sem Bandaríkjamönnum er annt um en mörgum öðrum þjóðum ekki. Framkoma starfsmanna bandarískra ríkisins gagnvart  konunni var hins vegar fyrir neðan allar hellur. Bandarísk stjórnvöld lýstu í kjölfarið yfir vonbrigðum sínum með starfhætti umræddra starfsmanna sinna og ætla að endurskoða hvernig tekið er á málum af þessu tagi. Um þetta atvik og bandarísk stjórnvöld skrifaði Morgunblaðið strax leiðara með orðbragði sem venjulegt fólk reynir að stilla sig um þar til það tekur við embætti iðnaðarráðherra og nóttin færist yfir.

Morgunblaðinu er vissulega ekki alls varnað. En pólitíski rétttrúnaðurinn, femínisminn, umhverfisofstækið, stíllitlu póstmódernistarnir, Lesbókarvilpan og fleiri slík nútímamerki á blaðinu gera það að verkum að gamlir og nýir áhugamenn um velgengni Morgunblaðsins geta varla staðið í því að kaupa áskrift að vellingnum. Ísland er sennilega eina landið á vesturhveli jarðar þar sem ekki er í boði virðulegt áskriftardagblað sem óhrætt heldur úti skynsamlegum borgaralegum gildum.