Miðvikudagur 19. desember 2007

353. tbl. 11. árg.
Ritstjóri Þjóðmála, Jakob F. Ásgeirsson, skrifar Ritstjóraspjall. Jakob mætti að ósekju skrifa meira – hann er einn skemmtilegasti dálkahöfundur landsins eins og þeir vita sem muna viðhorfsgreinar hans í Morgunblaðinu.
– Egill Helgason skrifar á vef sinn um nýútkomið hefti Þjóðmála.

Þ jóðmál komu út í síðustu viku og þar kennir margra grasa. Ritstjóraspjall Jakobs F. Ásgeirssonar er bitastætt sem löngum fyrr, og það er hárrétt munað hjá Agli Helgasyni að Jakob er einn skemmtilegasti dálkahöfundur landsins. Árin 1998-2004 skrifaði Jakob umtalaða pistla í Morgunblaðið, viðhorfa-pistlana sem Egill talar um, og síðar Viðskiptablaðið. Úrval þessara pistla hefur verið gefið út á bók, Frá mínum bæjardyrum séð, og fæst hún í Bóksölu Andríkis, og kostar þar kr. 1.550 heim send.

ÞÞ essa dagana eru margir á fleygiferð að leita jólagjafa handa vinum og ættingjum. Það er þá sjálfsagt að vekja athygli þessa leitandi fólks á Bóksölu Andríkis, en þar fást fjölmargar áhugaverðar bækur sem menn gætu jafnvel unnt fleirum en sjálfum sér að eignast. Þar eru Andríkar bækur eins og Löstur er ekki glæpur og Lögin; hagfræðiáhugamaðurinn finnur þar Leyndardóm fjármagnsins og Auðfræði; heimspekingurinn Af jarðlegum skilningi, Ritgerð um ríkisvald og Frelsið; andófsmaðurinn Kommúnismann og Íslamista og naívista; sægreifinn Þjóðareign og Fiskleysisguðinn; öryggisvörðurinn Moskvulínuna og Í hita kalda stríðsins; söguáhugamaðurinn finnur sér Hannes Hafstein og Kristján Albertsson, og sjónvarpsáhorfandinn þrjár ómissandi fjölmiðlabækur eftir Ólaf Teit Guðnason. Mjólkureftirlitsmaðurinn verður þó því miður að leita annað eftir ævisögu Guðna Ágústssonar, Baulað í básnum.

Bækur Bóksölu Andríkis eru tilvaldar til gjafar handa hugsandi vini eða þá vininum sem óskandi væri að byrjaði nú að hugsa.

N ú hafa álitsgjafar, tuttugasta árið í röð, komist að því að Sjálfstæðisflokkurinn logi í átökum sem hafi þó ekki enn brotist upp á yfirborðið. Þetta hafa þeir frá fjölmörgum heimildarmönnum sem enginn þorir að láta nafns síns getið, vegna yfirvofandi ofsókna. Enginn úr 40 þúsund manna flokki þorir að tjá sig undir nafni. Merkilegt að aldrei ratar inn í kenningarnar einfalt atriði eins og að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins fékk sitjandi formaður yfir 90% greiddra atkvæða, og var þó um leynilega kosningu að ræða. Það er sem sagt ekki einu sinni í leynilegum kosningum, sem alltaf eru haldnar á landsfundum Sjálfstæðisflokknum – flokknum þar sem allir skjálfa af hræðslu vegna kúgunar, eins og þeir vita allra manna mest um sem aldrei hafa í flokknum verið – sem hin miklu innanflokksátök koma í ljós. En alltaf hitta álitsgjafarnir á nafnlausa heimildamenn sem vita um geysilegan ófrið.