Í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld í síðustu viku var sagt frá enn einni launakönnuninni sem sýndi mun á launum karla og kvenna. Í þetta sinn náði könnunin til stjórnarráðsins, ráðuneytanna. Hún var gerð af félagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins. Í fréttinni var einnig gefið í skyn að munur hefði mælst á launum kynjanna í félagsmálaráðuneytinu, sjálfu jafnréttismálaráðuneytinu. Og sagður „urgur“ í háskólamenntuðum konum í ráðuneytinu.
Í kvöldfréttum sömu stöðvar næsta dag fór hins vegar allt á fullt við að gera þessa könnun tortryggilega, hún væri ekki marktæk vegna lélegrar svörunar, úrtak væri lítið og svo framvegis. Jafnframt kom fram að þeir sem gerðu könnunina hefðu lofað að greina ekki niðurstöður eftir einstökum ráðuneytum.
Nú ber nýrra við. Þarna er það mætt liðið sem ætlar að setja lög á okkur hin með fyrirmælum um hvernig við eigum að haga okkur í jafnréttismálum, setja á stofn jafnréttiseftirlit með almennum borgurum og banna mönnum að semja um trúnað um kaup og kjör. Þarna situr það uppi með launakönnun sem sýnir það sama og svo margar aðrar að karlar hafa hærri laun en konur. Launin sem þetta lið greiðir sjálft. Það reynir ekki bara að gera niðurstöðurnar tortryggilegar á allan hátt heldur er einnig reynt að leyna þeim.
En allar aðrar launakannanir sem gerðar eru í landinu eru auðvitað fullkomlega marktækar og án allra fyrirvara og má yfirfæra á alla þjóðina þótt úrtak sé lítið og ýmsir þættir ekki teknir með í reikninginn. Og að er sjálfsagt að birta laun hvers manns með því að gera álagningarskrá opinbera ár hvert. Og banna mönnum að hafa trúnað um launasamninga.