A llir frjálslyndir áhugamenn um stjórnmál ættu að vera áskrifendur að hinu ágæta tímariti, Þjóðmálum. Fyrir 3500 krónur á ári fást þannig fjögur hefti þessa fjölbreytta ársfjórðungsrits, sem sker sig svo ágætlega úr í íslenskri fjölmiðlaflóru, og auk þess fá áskrifendur ánægjuna af því að tryggja útkomu svo nauðsynlegs rits. Í síðustu viku kom jólahefti Þjóðmála út og kennir þar sem fyrr ýmissa grasa. Gísli Freyr Valdórsson birtir rannsókn á fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af umræðum um fátækt og ójöfnuð á Íslandi síðasta kosningavetur, og kemst að því að þar hafi gætt mikillar hlutdrægni. Hagfræðingarnir Geoffrey Wood og Bjarni Bragi Jónsson velta vöngum um þau sjónarmið að Íslendingar ættu að huga að upptöku annars gjaldmiðils, til dæmis svissnesks franka, og komast að gagnstæðum niðurstöðum og úr sagnfræðihorninu skrifar Guðni Th. Jóhannesson um fyrstu stjórnmálaár Gunnars Thoroddsens, en Guðni vinnur að ævisögu dr. Gunnars.
Fjölmargt annað forvitnilegt er í Þjóðmálum. Skúli Magnússon, sem lengi bjó í Kína, svarar fullum hálsi ritdómi Morgunblaðsins um nýútkomna ævisögu Maós, en Morgunblaðið fól Sverri Jakobssyni, sagnfræðingi og fyrrverandi formanni Samtaka herstöðvaandstæðinga, að dæma bókina, eins og skiljanlegt er. Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins, skrifar um velferðarmál og segir að besta velferðin sé að sem flestir verði sjálfbjarga en ekki að bætur verði sem hæstar; Gréta Ingþórsdóttir skrifar um nýútkomna ævisögu baráttukonunnar Ayan Hirsi Ali og er óhætt að taka undir þá niðurstöðu Grétu að þar sé á ferð „mikilvæg bók sem á það skilið að sem flestir lesi hana“; Atli Rúnar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður Ríkisútvarpsins fjallar um Fjölmiðla 2006 og ber hana lofi, eins og rakið var í helgarsproki í gær og Ragnhildur Kolka fjallar um Íslamista og naívista. Þá er ekki síður forvitnilegur dómur Björns Bjarnasonar um ævisögu Guðna Ágústssonar, en þar dæmir auðvitað maður sem sjálfur hefur fylgst með ýmsu af bókarefninu úr návígi.
Þá er enn ótalin ein þarfasta grein tímaritsins, en Björn Bjarnason fer yfir REI-málið svokallaða, og þó einhverjum kunni eflaust að þykja það mál útrætt, þá er þar á ferð afar gagnleg greining á málinu. Hefðu raunar ýmsir stuðningsmenn núverandi meirihlutaflokka gott af að kynna sér hana, en auðvitað er hætt við að þeir sæju aðeins höfund greinarinnar en ekki efni hennar.
Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis. Þar má einnig fá stök hefti tímaritsins.
I ngibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Kristrún Heimisdóttir aðstoðarmaður hennar hafa verið áberandi í íslenskum fjölmiðlum síðustu daga. Það er alveg dásamlegt að fá þær heim til Íslands í jólafrí þótt friður í Mið-Austurlöndum og lausn á helstu vandamálum Afríku þurfi að bíða aðeins á meðan.