F emínistafélag Íslands hefur kært greiðslukortafyrirtækið VISA til lögreglunnar. Hið meinta brot er að menn noti kort fyrirtækisins til að kaupa aðgang að erlendum klámsíðum. Kynjafræðin voru fljót að tengja: Klámvísa. „Hvernig geta forsvarsmenn fyrirtækisins ábyrgst að efnið á þessum síðum sé löglegt?“, spyr Katrín Oddsdóttir hjá öryggisráði Femínistafélagsins í viðtali við 24stundir í dag. Hún bætir svo við um ástæður kærunnar: „Það er rosaleg tenging úr klámi yfir mansal og barnavændi, en ekki að allir femínistar séu á móti kynlífi eins og margir virðast halda.“
Nei femínistar eru ekki allir á móti kynlífi þótt margir standi í þeirri trú. Af hverju ætli menn haldi það? Gæti það verið af því að femínistar leggja klám að jöfnu við þrælahald og ofbeldi gegn börnum?
Og það eru líka ótrúlega margir sem stuðla að því að klámefni sé framleitt og dreift á milli manna. Sjáiði bara karlpungana í stóra svarta húsinu við Arnarhól. Þeir prenta peningaseðla handa alls kyns fólki og taka enga ábyrgð á því hvort seðlarnir séu notaðir til löglegra viðskipta. Sumir seðlarnir enda jafnvel í buxnastreng nektardansara. Símafyrirtæki hleypa líka alls kyns dónaskap yfir línur sínar án þess að geta ábyrgst að það sé allt löglegt. Skóframleiðendur vita ekki nema menn labbi á skónum út í bókabúð til að ná sér í vafasöm tímarit.