U m þessar mundir leggja sendinefndir á ráðin í Balí á Indónesíu um hvað taki við í loftslagsmálum þegar Kyoto samningurinn rennur út árið 2012. Við munum verða vitni að algengum viðbrögðum mannsins við árangursleysi. Sendinefndirnar munu heimta meira af þeim ráðum sem hafa ekki dugað: í þessu tilviki þrengri útblástursheimildir sem taki til fleiri ríkja. Stærri og “betri Kyoto mun verða enn meiri erindisleysa.“ segja Gwyn Prins og Steve Rayner, sem stýra rannsóknarstofnunum við tvo breska háskóla, í grein sem birtist í The Wall Street Journal í fyrradag.
Prins og Rayner segja að fullgilding Kyoto samningsins hafi orðið helsta mælistika á því hvort ríkisstjórnir eru með eða á móti Jörðinni og hinum fátæku sem hún elur. Ný ríkisstjórn Ástralíu sé gott dæmi um þetta. Hún mun fullgilda samninginn en líkt og önnur lönd sem hafa gert einmitt það mun hún engum árangri ná við að draga úr útblæstri eins og samningurinn kveður á um. Prins og Rayner gleyma því þó að Kevin Rudd, nýr forsætisráðherra Ástalíu, hefur sýnt mikla útsjónarsemi og fimi þegar kemur að því að kolefnisjafna úr eyra í munn.
Þeir benda jafnframt á að þar sem tekist hefur að draga úr útblæstri frá árinu 1990, líkt og í sameinuðu Þýskalandi og Bretlandi komi það loftslagsmálum í raun ekkert við. Einkavæðing Thatchers leiddi til lokunar á mengandi kolaorkuverum í Bretlandi og kommúnisminn hafi í fallinu tekið með sér mikið af mengandi iðnaði í Austur-Þýskalandi. Frelsi og einkavæðing er það eina sem skilað hefur árangri á mælikvarða Kyoto samningsins. Samt halda menn menn áfram að leita lausna með boðum og bönnum.
Þeir segja svo að Kyoto samningurinn hafi ekki aðeins verið pólitískt flopp heldur einnig tæknileg endaleysa. Samningurinn hafi haft samninga sem tóku á ósoni, brennisteini og kjarnorkuvá að fyrirmynd. Þau mál hafi hins vegar öll átt sér augljósar tæknilegar lausnir. Loftslagsbreytingar séu miklu flóknara mál.