Laugardagur 8. desember 2007

342. tbl. 11. árg.

Í gær gat Vefþjóðviljinn nokkurra breytingartillagna meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið en alls gerir meirihlutinn nú tillögu um að auka útgjöld ríkissjóðs um 1.200 milljónir frá upphaflegu frumvarpi. Spyrja má hvers vegna tillögur um þessi furður komu ekki fram við fyrstu umræðu um frumvarpið. Einfaldasta svarið er kannski að þá hefði hinn almenni maður í þjóðfélaginu haft meiri tíma til að ræða þær áður en frumvarpið verður samþykkt. Það er betra að lauma þessu inn nokkrum dögum fyrir jólahlé. Svona eins og lögunum um aukna ríkisstyrki til stjórnmálaflokkanna var lætt í gegnum þingið í mesta skammdeginu fyrir réttu ári.

En þessi ótrúlegi listi yfir ný og aukin útgjöld minnir þó aðallega á hve mikilvægt það er að snarlækka skatta ætíð ef útlit er fyrir afgang af ríkissjóði. Það gengur ekki að leggja fram frumvarp með svo miklum afgangi að allir hagsmunahópar landsins telji sig geta nælt í stærri sneið.

Það tekur enginn mark á tali um nauðsyn aðhalds í ríkisrekstri þegar lagt er fram fjárlagafrumvarp með kr. 30.000.000.000 afgangi. Það er eins og að hvolfa úr brauðpoka í Tjörnina og vona að endurnar taki ekki eftir neinu.

Þessum 30 milljörðum á að skila til skattgreiðenda án frekari tafar. Þá geta stjórnmálamennirnir í það minnsta sagt við þrýstihópana að peningarnir séu búnir.