Áhugafólk um eðalvín og aðra áfenga drykki á kost á að kaupa vín í nærri 50 vínbúðum um allt land sem mörgum hefur verið valinn staður í nágrenni við aðrar verslanir, til dæmis stórar matvöruverslanir. Í vínbúðunum er mikið úrval og þjónusta góð. |
– Steinunn Stefánsdóttir í leiðara Fréttablaðsins 21. október 2007. |
Þ jónusta áfengisverslana ríkisins er svo góð og þær svo margar og á svo þægilegum stöðum að ekki er þörf á einkareknum verlsunum á þessu sviði. Á þennan hátt reyna Steinunn Stefánsdóttir og fleiri andstæðingar frumvarps um að afnema einkarétt ríkisins til smásölu á áfengi að sannfæra landsmenn um málstað sinn. En um leið og svonefnt aðgengi að áfengi er sagt mjög gott hjá ÁTVR er sagt að gott aðgengi auki á áfengisbölið. Hvers vegna bjóða menn þá svona góða þjónustu hjá ÁTVR? Þessi málflutningur gengur ekki upp. Um leið og Steinunn Stefánsdóttir lofar þjónustu ÁTVR og gott aðgengi manna að vínbúðum í nágrenni við matvöruverslanir segir hún í leiðara sínum: „Íslensk áfengismenning sver sig í ætt við menningu nágrannaþjóðanna þar sem reynslan sýnir beint samhengi milli aðgengis að áfengi og heilsufarslegra og samfélagslegra vandamála í tengslum við áfengisneyslu.“
Hvort er það? Það er ekki bæði hægt að halda því fram að aðgengi að vínum sé mjög gott í ÁTVR og um leið og menn vara við því að aðgengi sé gert gott.
Arnar Sigurðsson vínáhugamaður upplýsti svo nokkrum dögum síðar í Fréttablaðinu að fullyrðing Steinunnar um góða þjónustu ÁTVR við áhugamenn um eðalvín á ekki við rök að styðjast. Arnar nefnir sem dæmi að ekki er til ein einasta flaska af efsta flokki „premier cru classe“ frá Bordeaux í einni einustu þeirra 50 „eðalvín“-verslana sem Steinunn tíundar. Engin afgreiðslustofnun ÁTVR býður upp á að bjóða hita- eða rakastýrt geymslurými og því liggja vín sem ekki seljast strax undir skemmdum. Arnar upplýsir einnig að Íslendingar geti pantað sér vín erlendis frá og fengið þau tollafgreidd heim í hús af starfsmönnum Íslandspósts eins og um bókasendingu væri að ræða. Enda er innflutningur á áfengi frjáls. Íslendingum er með öðrum orðum heimilt að kaupa áfengi af öllum kaupmönnum heimsins nema íslenskum kaupmönnum í einkarekstri.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur svo rakið í vikunni nota SÁÁ, Spegill Ríkisútvarpsins og fleiri andstæðingar frumvarpsins svo hreinar rangfærslur um þróun áfengismála í Svíþjóð máli sínu til stuðnings.
Og mitt í allri umræðunni um mikilvægi þess að fela áfengi fyrir hinum almenna manni opnaði ÁTVR nýjan og glæsilegan vef. Í kynningu á vefnum segir: „Hefur þú leitað í vörulistanum? Hjálparleitin í vörulistanum auðveldar þér leitina, allt frá því að finna vínið með matnum, eða jafnvel finna bjórinn frá uppáhalds landinu þínu. Auðvelt er að finna hvaða vín hentar t.d. með lambinu, fiskinum eða grillmatnum með því að haka við matartáknin í hjálparleitinni.“
Ríkið sem vill vernda Íslendinga fyrir víninu býður auðvitað upp á „hjálparleit“ til að auðvelda þeim að finna rétta vínið. Skál.