S
Drykkja jókst en sjálfsmorðum fækkaði. Neðsti ferillinn á myndinni sýnir hvernig tíðni sjálfsmorða kvenna í Svíþjóð lækkaði á sama tíma og áfengisneysla jókst. Spálíkönin sem SÁÁ og Spegillinn nota fara víðs fjarri raunveruleikanum eins og efri tveir ferlarnir sýna. (Andreasson o.fl.) |
pegli Ríkisútvarpsins hefur greinilega þótt Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður standa sig vel þegar hann flutti mál sitt á Morgunvakt sama miðils í gærmorgun og talaði fyrir því að leyft yrði að selja áfengi í matvöruverslunum. Gunnar Gunnarsson útvarpsmaður tók því drjúgan hluta þáttar síns í gærkvöldi til að gera lítið úr málflutningi Sigurðar Kára. Gunnar vitnaði til sænskra rannsókna sem SÁÁ hefur stuðst við og Vefþjóðviljinn gerði skil fyrradag. Eins og þá kom fram virðast þessar rannsóknir alls ekki gefa tilefni til þeirra ályktana sem SÁÁ og nú Spegillinn draga.
Í pistli Gunnars sagði meðal annars: „Þetta stóraukna framboð myndi hafa mikil áhrif á lýðheilsuna. Í sænsku könnuninni eru leiddar líkur að því að dauðaslysum vegna áfengisneyslu myndi fjölga margfalt, sjálfsmorðum, morðum einnig, og misþyrmingum og svo síðast en ekki síst fjarvistum frá vinnu og námi“
Útvarpsmanninum tókst þarna að taka vafasama rannsókn og byggja á henni enn vafasamari málflutning. Í fyrsta lagi segir líkan Holders sem rannsóknin byggir á alls ekki að tíðni þeirra neikvæðu atburða sem taldir eru upp muni margfaldast þó að neyslan ykist jafn mikið og gert er ráð fyrir. En mikilvægara er að raunveruleg reynsla Svía af áhrifum aukinnar áfengisneyslu er alls ekki sú að þróunin verði með þeim hætti sem líkanið spáir fyrir um.
Í fyrradag var hér tekið dæmi af því hvernig líkan Holders spáði kolrangt fyrir um fjölda dauðsfalla af völdum áfengis á árunum 1994 til 2002. Í tilefni af rangflutningi Spegilsins er ef til vill ástæða til að taka annað dæmi. Á myndinni sem hér fylgir er sýnt hvernig tíðni sjálfsmorða hjá konum breyttist á tímabilinu 1994 til 2002, en á því tímabili jókst áfengisneysla á mann í Svíþjóð úr 7,8 lítrum í 9,9 lítra. Svörtu hringirnir eru raunverulegar tölur er ljóst að sjálfsmorðum kvenna fækkaði á sama tíma og áfengisneysla jókst. Spá samkvæmt líkani Holders er hins vegar efsti ferillinn með tíglum og eins og fyrr á spáin sér enga stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir þetta er því slegið föstu af Speglinum að tíðni sjálfsmorða muni margfaldast ef áfengisneysla eykst.