Í DV í gær mátti finna heilsíðufyrirsögnina „Stöðugur flótti úr þjóðkirkjunni“. Flóttanum stöðuga til stuðnings var sýnt graf sem sýndi að hlutfall Íslendinga í þjóðkirkjunni hefur vissulega lækkað úr hinum ótrúlegu 92,3% í 82,1% á síðustu 15 árum. En hverjir hafa flúið úr þjóðkirkjunni? Því er ekki svarað í DV en málið er þó borið undir Sigurð Hólm Gunnarsson sem sagður er varaformaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, til aðgreiningar frá siðlausu húmanistunum. Sigurður siðræni segir að ástæða fækkunarinnar sé meðal annars að fólk þori að vera annarrar skoðunar og sé opnara fyrir ólíkum lífsskoðunum og fleiri trúfélög séu í boði en oft áður. „Fólk þorir líka að vera annarrar skoðunar og er ekki lengur hrætt við að þurfa að fylgja þessum viðteknu skoðunum í samfélaginu.“ Já hræðslan við þurfa að fylgja viðteknum skoðunum er skelfileg og gott að menn eru lausir við hana.
DV ber einnig flóttann mikla undir Pétur Pétursson prófessor í guðfræðideild Háskóla Íslands og hann telur að afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra skýri hann að hluta en Pétur segir kirkjuna hafa verið „seina“ í þeim efnum.
Allt eru þetta lærðar og siðrænar skýringar hjá þeim Sigurði í Siðmennt og Pétri prófessor. Og væru vafalaust ágætar til síns brúks ef ekki vildi svo óheppilega til að í öllum „stöðuga flóttanum úr þjóðkirkjunni“ hafi raunar fjölgað í henni. Það hafa aldrei verið fleiri í þjóðkirkjunni en einmitt núna. Hins vegar hefur fjölgað hraðar í ýmsum öðrum söfnuðum undanfarin ár, ekki síst með auknum fjölda innflytjenda. Þannig fjölgaði félögum í kaþólsku kirkjunni yfir 200% á sama tíma og einnig hefur fjölgað mikið í Krossinum og Félagi múslíma á undanförnum árum. Kannski getur Pétur prófessor mátað þá þróun við hina merku kenningu sína um að flótti bresti á þegar trúfélög séu „sein“ í málefnum samkynhneigðra.