M eðal þeirra tíðinda sem undanfarna daga hafa verið sögð af því mikla fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur, er að forstjóri þess muni næstu mánuði eingöngu sinna sérstöku fyrirtæki sem sjái um fjárfestingar og starfsemi Orkuveitunnar erlendis. Og þessar fréttir virðast enga sérstaka athygli vekja – hvað þá að þær verði til þess að reykvískir borgarfulltrúar byrji að draga andann.
Orkuveita Reykjavíkur varð til við sameiningu nokkurra borgarstofnana, fyrst Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur og svo Vatnsveitu Reykjavíkur. Þessar stofnanir höfðu fremur einfalt hlutverk. Reykjavíkurborg rak þær í þágu borgarbúa, fyrst og fremst til þess að sjá þeim fyrir vatni og rafmagni.
Eftir að vinstrimenn náðu völdum í borginni tóku þeir að þenja Orkuveituna í allar áttir. Hún hefur farið um landið og keypt upp hitaveitur í ýmsum sveitum, sem er vissulega mjög umdeilanleg þróun, og það sem meira er, menn hafa látið Orkuveituna hefja starfsemi hér og hvar í heiminum. Fyrirtæki, sem að öllu leyti er í eigu íslenskra sveitarfélaga – og að langmestu leyti í eigu eins þeirra – er þannig látið hafa slík umsvif erlendis að forstjóri þess mun næstu sjö mánuðina sinna þeim og engu öðru.
Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað enginn talsmaður þess að sveitarfélög standi í miklum veiturekstri, en látum það vera að sinni. Það er hins vegar með öllu ósamþykkjanlegt að opinber fyrirtæki eins og veitufyrirtæki íslenskra sveitarfélaga, fyrirtæki sem eingöngu ætti að sjá um að útvega íbúum hlutaðeigandi sveitarfélaga vatn og orku við sanngjörnu verði, standi í fjárfestingum erlendis.
Og það má einu gilda hvort þessar fjárfestingar munu skila arði með tímanum. Hvert sem hlutverk opinberra veitufyrirtækja getur hugsanlega verið í heimabyggð á Íslandi, þá hafa þau ekki nokkurt hlutverk utan landsteina. Ef að menn samþykkja að Orkuveita Reykjavíkur taki að sér að leggja vatnslagnir í Shanghaí þá má eldhús Landspítalans alveg eins opna pylsuvagn á Trafalgar-torgi.
Og raunar ætti Orkuveitan sjálf þá alveg eins að mega opna vagninn og helst að láta nýjustu alfreðana afgreiða þar sjálfa.