Eitt af því, sem hefir aukið frægð hinna fornu Íslendínga fram eptir öldum, er sú þekkíng á lögum og landstjórn, sem hefir verið þar almenn frá alda öðli í fornöld. Þessu lýsa Íslands fornu lög og dómar lengi frameptir, meðan lög og lof voru í höndum landsmanna sjálfra. Útlendir ferðamenn, sem voru á Íslandi meðan Jónsbók var í fullu gildi, hafa getið þess, til dæmis um almenna lagamentun meðal alþýðu á landi voru, að hver lögréttumaður gekk með lögbók sína undir hendi sér til lögréttu, og sýndi þar með, að hann hafði bæði þekkíng á lögum lands síns, og líka greind á að þýða þau þegar til þurfti að taka. Þetta sýnir einnig hinn mikli fjöldi af afskriptum lögbóka, eins og þau hin miklu söfn af dómabókum, og ymsar ritgjörðir um lagaþýðíngar, sem hafa verið til, og eru enn til í handritum eptir ymsa lögfróða menn, jafnvel af bændastétt, frá hinum fyrri tímum. Eptir að hin dönsku lög fóru að komast inn, og ryðja hinum íslenzku úr sæti, drógst lagamentunin smásaman úr höndum bænda, og varð eiginleg eign lagamannanna. En allir þeir hinir helztu af lagamönnum vorum hafa þó fundið, hversu mikils var í mist, þegar lagaþekkíngin ekki hafði rót meðal alþýðu manna, að hún varð þarmeð köld og dauð, svo að sjálf lögin urðu þarfyrir stirð, ógeðfeld og ávaxtarlaus. |
– Jón Sigurðsson, formáli fyrsta bindis Tíðinda um stjórnarmálefni Íslands 1854-63, útg. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn 1864. |
Ó hætt er að fullyrða að mörg þeirra málefna sem Vefþjóðviljinn hefur vakið máls á njóta almenns stuðnings þorra landsmanna. Nægir þar að nefna sem dæmi að fáir taka til varna fyrir gengdarlausa og ólöglega eyðslu ríkisins og stofnana þess á almannafé umfram þær fjárheimildir sem samþykktar hafa verið á Alþingi hverju sinni.
Það er því umhugsunarefni hvers vegna hinn almenni maður hefur fjarlægst svo lögin og landsstjórnina að hann láti sig æ sjaldnar varða þegar ríkið sjálft skautar út fyrir sett lög eða þegar einhver vitleysan er lögleidd. Þetta sinnuleysi gæti einhver ætlað að birtist til dæmis í lítilli kosningaþátttöku.
Hlutfall kjósenda sem nýta sér kosningarétt sinn hefur farið hægt og rólega lækkandi frá þjóðaratkvæðagreiðslu um stofnun lýðveldisins árið 1944. Þessi þróun hefur hins vegar verið hægari en í mörgum öðrum vestrænum ríkjum og þátttaka í almennum kosningum hér á landi er þrátt fyrir allt enn yfir 80%.
Skýringanna á fjarlægð eigenda og hirðingja opinbers fjár er því að leita annars staðar en í að kjósendur mæti ekki lengur á kjörstað.
Þegar skoðuð eru þau mál sem lenda í deiglu dægurþrassins er áberandi hversu smámunarleg þau eru gjarnan og hve umræðan um þau er tilviljanakennd. Þá sem taka þátt í henni virðist oft skorta yfirsýn og deila um smáatriði á meðan stóru póstarnir liggja í þagnargildi. Lögin eru ekki í sameiginlegri vitund þjóðarinnar og hafa líklega ekki verið það um langt skeið. Stanslaus buna lítt skiljanlegra og efnismikilla tilskipana frá Brussel hefur ekki bætt úr. Stirð, ógeðfelld og ávaxtarlaus. Ef til vill er sagan að einhverju leyti að endurtaka sig og hluta skýringarinnar því að leita fyrr. Mun fyrr.