R íkisskattstjóri boðar um þessar mundir að tekið verði sérstaklega á þeim sem skila ekki skattframtali. Þrátt fyrir rafræn skil mun þeim hafa fjölgað á síðustu árum sem skila ekki framtali og voru þeir um 18 þúsund á síðasta ári. Þarf það að koma á óvart? Þegar menn skila skattframtali láta skattyfirvöld eins og um trúnaðarmál sé að ræða; aðgangsorð, lykilorð og dulkóðaðir vefir gefa til kynna að farið sé með þau gögn sem menn senda sem trúnaðarmál. Nokkrum mánuðum síðar gefa yfirvöldin út skrár með bitastæðustu upplýsingunum. Skrárnar liggja á glámbekk í tvær vikur. Í 117. grein tekjuskattslaganna segir:
Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila. Hið sama gildir um þá er veita þessum aðilum aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um skattframtöl. Þagnarskyldan helst þótt menn þessir láti af störfum. |
Hvernig fer það saman við þetta ákvæði að starfsmenn skattstjóra um land allt vinni lista yfir greiðendur hæstu gjaldanna og sendi fjölmiðlum í ofboði?
Kannski ríkisskattstjóri ætti að byrja á því að láta undirmenn sína á skattstofum landsins ganga af sæmilegri virðingu um þær upplýsingar sem þeim er treyst fyrir áður en hann gerir kröfur til hins almenna borgara um að skila slíkum upplýsingum.
S töð 2 gerði í gærkvöldi mikið úr því að nú ylti hlutafélagavæðing Orkuveitu Reykjavíkur á því að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra flytti frumvarp um breytinguna. Þessu skilyrði fréttastofunnar fylgdu svo nokkur orð um það að mál, sem Samfylkingarmenn í borgarstjórn berðust gegn, næði ekki fram að ganga nema iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar flytti þetta frumvarp.
Síðan hvenær hafa ráðherrar einkarétt á því að flytja frumvörp? Geta almennir þingmenn ekki lagt fram lagafrumvörp?