Heimir Már Pétursson var fyrir nokkrum árum framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins. Fyrir liðlega tveimur árum var hann á framboðslista Samfylkingarinnar í alþingiskosningum. Fyrir hálfu ári var hann í framboði til varaformanns Samfylkingarinnar, hvorki meira né minna. Og fyrir fjórum dögum hafði hann umsjón með Hádegisviðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það fór vel á því að Heimir Már sæi um viðtalið. Ekki bara vegna þess hve náin pólitísk tengsl eru á milli þeirra Ingibjargar Sólrúnar. Nei, ekki síður vegna þess að fyrir tveimur mánuðum var Heimir Már ráðinn fréttastjóri Fréttavaktarinnar. Fyrir þá sem ekki vita er Fréttavaktin ný fréttastofa á vegum 365 ljósvakamiðla. „Fyrsta sjálfstæða fréttastofa landsins þar sem fréttamenn starfa við alhliða miðlun frétta; sinna kvikmyndatöku, klippingum, skrifum á Vísir.is, útvarpsfréttum og sjónvarpsfréttum,“ eins og sagði í tilkynningu á sínum tíma. Sem sagt ekkert smáræði. |
– Ólafur Teitur Guðnason, Fjölmiðlar 2005, bls. 309-310. |
F réttamanni á Stöð 2 var sagt upp á dögunum – og af því að fjölmiðlamenn hafa mun meiri áhuga á fjölmiðlamönnum en öðru fólki þá var meira sagt frá þessari einu uppsögn en til dæmis því að 70 starfsmönnum Flugleiða var sagt upp á sama tíma. Fréttamaðurinn segir sjálfur að uppsögnin tengist því að hann hafi gagnrýnt harðlega ráðningu nýs fréttastjóra, Steingríms Ólafssonar, en að hans mati hafi trúverðugleiki fréttastofunnar orðið fyrir stórtjóni við því að maður, nýkominn úr nánu samstarfi við Halldór Ásgrímsson, varð fréttastjóri.
Hafði einhver fréttamaður gagnrýnt það að Heimir Már Pétursson væri í stjórnunarstöðu á fréttastofunni? Eða að NFS yrði undir stjórn Róberts Marshalls? Eða gæti verið að pólitísk fortíð hafi fyrst farið að skerða trúverðugleika fréttastjóra þegar þeir voru ekki kunnir vinstrimenn?
Heimir Már Pétursson hefur oft sagt skýrar og vel unnar fréttir. Það er ekkert að því að hann leiti sér starfsframa í fréttamennsku þó hann hafi áður verið mjög virkur í stjórnmálum. Heimir Már hefur aldrei farið í felur með það hvar hann stendur og þeir, sem það kunna að vilja gera, geta þá metið störf hans í því ljósi. Og það er meginmálið, að það liggi fyrir hvar fólk stendur. Það eru ekki margir fréttamenn sem eru í raun „hlutlausir“ þó þeir hafi kannski ekki skráða fortíð í stjórnmálum. Hafa ekki flestir fjölmiðlamenn sínar persónulegu skoðanir á helstu deilumálum, þó það séu bara undantekningarnar í þeira hópi sem kannast við þær opinberlega? Og svo lítið dæmi sé tekið: hvaða fréttamaður er það sem ekki kýs að nýta atkvæðisrétt sinn í alþingiskosningum?
Fjölmiðlamenn hafa gríðarlegan áhuga á fjölmiðlamönnum og því sem þá hendir. Með einni undantekningu. Fæstir þeirra vilja minnast á fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar og kann það að vera af því að þar eru rakin dæmin um vinnubrögð fjölmiðlamanna. En þó margir vilji helst þagga bækur Ólafs Teits niður, þá eru þær afar mikilvægt hjálpargagn hins almenna lesanda, mannsins sem þarf að treysta á fjölmiðlana en getur ekki staðið í því daginn út og inn að kanna heimildagildi hverrar fréttar. Og svo eru bækurnar bráðskemmtilegar aflestrar. Frásögn Ólafs Teits af hádegisviðtali Heimis Más við Ingibjörgu Sólrúnu heldur áfram:
Já, honum óx ásmegin jafnt og þétt eftir því sem leið á viðtalið. – Alveg þangað til hann varð aðeins of öruggur. Undir lokin spurði hann formann sinn hvaða fylgi væri ásættanlegt fyrir flokk þeirra í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Og fylgdi spurningunni úr hlaði með því að vitna í nýjustu skoðanakannanir. Hann orðaði þetta svona: „Hvað getur þú sætt þig við? Við erum í tutt, þið eruð í… þið eruð í tuttugu og sex prósentum í nýjustu könnuninni.“ „Við erum í tuttugu og sex prósentum,“ vildi hann sagt hafa, sjálfur fréttastjórinn. |
Fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar fást í Bóksölu Andríkis.