Helgarsprokið 2. september 2007

245. tbl. 11. árg.

N ú þegar styttist í að Alþingi komi saman á ný – án þess að Vefþjóðviljinn hlakki sérstaklega til þess – er hollt að velta því fyrir sér til hvers menn halda slíka samkomu. Hver er meginástæðan fyrir því að einstaklingar innan ákveðinna landamerkja fela litlum hópi manna vald til lagasetningar yfir sér? Til hvers eru lögin? Fyrir sex árum gaf Andríki út ritið Lögin eftir franska hagfræðinginn og blaðamanninn Frédéric Bastiat en þá voru liðin 200 ár frá fæðingu hans. Ritið fæst enn í Bóksölu Andríkis og hvergi annars staðar.

Eins og nafnið gefur til kynna eru lögin megin viðfangsefni Bastiat í þessari ágætu bók. Og hann spyr því eðlilega til hvers þau séu?

En hvað eru þá lögin? Eins og ég hef sagt annars staðar, eru þau sameiginleg skipan á rétti einstaklingsins til réttmætrar sjálfsvarnar. Hvert og eitt okkar þiggur vissulega af náttúrunni, af Guði, réttinn til að verja sjálft sig, frelsi sitt og eignir. Af því þetta þrennt er það sem líf okkar felst í og það sem heldur því við. En hver þessara þátta bætir annan upp og er lítt skiljanlegur hver út af fyrir sig. Því hvað eru hæfileikar okkar ef ekki framlenging á skapgerð okkar? Og hvað eru eignir ef ekki framlenging á hæfileikum okkar? Ef hver og einn á rétt á að verja sjálfan sig, frelsi sitt og eignir, jafnvel með valdi, eiga margir saman líka rétt á að ráða ráðum sínum og koma á fót sameiginlegri stofnun til að sjá um þessar varnir með reglubundnum hætti. Þannig grundvallast hinn sameiginlegi réttur á rétti einstaklingsins og væri ekki til án hans. Hin sameiginlega stofnun getur ekki átt sér annan tilgang, annað verkefni, en að koma í stað þess valdsviðs sem einstaklingarnir höfðu hver um sig.

Nú getur valdsvið einstaklingsins ekki á réttmætan hátt vegið að lífi annarra, frelsi þeirra eða eignum. Og af sömu ástæðu er ekki réttmætt að nota sameiginlega stofnun til að vega að lífi, frelsi eða eignum fólks, hvort sem það eru
einstaklingar eða hópar fólks. Því slík misnotkun valds er í báðum tilvikum í andstöðu við forsendur okkar. Hver myndi láta sér detta í hug að segja, að við höfum fengið valdsvið okkar, ekki til að verja okkar eigin rétt, heldur til að traðka á jafngildum rétti bræðra okkar? Og ef það er fráleitt í tilviki hvers og eins í sinni einstaklingsbundnu breytni, hvernig getur það verið réttmætt í tilviki hins sameiginlega valds sem er ekki annað en skipuleg sameining á
valdi einstaklinganna?

Ef þetta stenst getum við ályktað svona: lögin eru skipuleg framsetning á náttúrulegum rétti fólks til réttmætrar sjálfsvarnar. Þar er skipt út einstaklingsvaldi fyrir sameiginlegt vald, í því skyni að hlutast til um þau mál sem annars væri réttmætt að einstaklingsvaldið hlutaðist til um. En þetta er gert til að vernda líf fólks, frelsi þess og eignir, til að vernda rétt hvers og eins og til að við búum öll við réttlæti.

Og Bastiat heldur áfram:

Ef til væri þjóð þar sem gengið væri út frá þessum hugmyndum, virðist mér að þar gengju hlutirnir óvenju vel fyrir sig, jafnt í orði sem á borði. Mér virðist, að af öllum þeim stjórnvöldum sem hægt er að hugsa sér, væru stjórnvöld þessarar þjóðar þau einföldustu, þau hagkvæmustu, þau léttustu í vöfum, þau minnst truflandi, þau minnst ágengu, þau réttlátustu og þar með þau tryggustu í sessi sem um getur.Og þá er sama hvert skipulag þeirra er að öðru leyti.

Ástæðan er sú að í ríki af þessu tagi myndi hver og einn gera sér grein fyrir að hann ætti sjálfur öll gæði í lífi sínu og bæri sjálfur alla ábyrgð á sér. Að því gefnu að einstaklingurinn nyti virðingar, atvinna væri frjáls og enginn gæti seilst í ávexti vinnunnar með óréttmætum hætti, þá hefði enginn neitt að sakast við ríkið. Að vísu getum við ekki þakkað ríkinu ef okkur gengur vel, en þegar illa fer getum við heldur ekki kennt því um, ekki frekar en bændurnir fara að kenna ríkinu um hagl eða frost. Ríkið fælist ekki í öðru en að láta okkur öryggi í té, en það eru vissulega ómetanleg gæði.

Bastiat leggur á það áherslu í bók sinni að lögin eigi að vernda hinn náttúrulega rétt eintaklingsins en ekki útdeila nýjum réttindum á kostnað annarra manna. Það er hætt við að lagasafnið myndi minnka talsvert ef menn færu að þessum ráðum.  Lögum og reglugerðum fjölgar hins vegar ár frá ári. Og þeim fjölgar ekki bara. Eldri lögum er einnig breytt og yfirleitt þannig að bálkurinn stækkar. Lagabreytingar hafa kostnað í för með sér fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem þurfa að kynna sér nýjungarnar og breyta hegðun sinni til samræmis.

Svo hratt fjölgar lögum og svo oft eru breytingar á þeim til hins verra að það væri sennilega gott ef menn sættust á að gera engar lagabreytingar framar. Flest vitlausustu boðin og bönnin eru þess eðlis að tækninýjungar hjálpa mönnum að komast í kringum þau með tíð og tíma en um leið eru líkurnar á því að þau verði afnumin með lögum sáralitlar og líkurnar á því að fleiri heimskulög verði sett yfirgnæfandi.