Miðvikudagur 22. ágúst 2007

234. tbl. 11. árg.
Þegar við horfum um öxl, sjáum við, að flestir siðir okkar og hættir hafa orðið til við úrval eða þróun; þeim, sem reyndust betur var haldið áfram, hinum hafnað. En þetta átti ekki við um peninga. Þar var ekki um að ræða neitt úrval, neina þróun, neina samkeppni ólíkra siða. Valdsmenn komu þegar í upphafi auga á það, hversu gagnlegir peningar gátu orðið þeim, svo að þeir tóku sér einkaleyfi á framleiðslu þeirra.
– F.A. von Hayek í fyrirlestri um skipulag peningamála.

Á

Hundrað ára gamall seðill frá hlutafélaginu Íslandsbanka.

morgun heldur RSE forvitnilega ráðstefnu um gjaldmiðla og alþjóðavæðingu. Á ráðstefnunni verður leitast við að svara spurningunni um stöðu þjóðargjaldmiðla á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og efnahagslegs frelsis. Ennfremur verður velt upp spurningunni um hvort nauðsynlegt sé fyrir smáríki að gerast aðili að myntbandalagi til að taka upp aðra mynt. Þá verður litið til ríkja sem tekið hafa upp aðra mynt en sína eigin, hvernig það var gert og hvernig það hefur reynst.

Kannski mætti bæta við spurningunum: Hvers vegna hafa ríkisstjórnir einkarétt á seðlaútgáfu? Eiga ríki, stór og smá, almennt að gefa út gjaldmiðla?

Ótakmörkuð seðlaprentun með óhjákvæmilegu verðfalli gjaldmiðils, öðru nafni verðbólga, er gamalt húsráð ríkisstjórna um allan heim. Eins og Hayek benti á komu valdsmenn fljótt auga á þessa leið til að skattleggja almenning. Íslendingar þekkja þetta mæta vel þótt dregið hafi úr þessari skattheimtu hin síðari ár.

Margar aðrar þjóðir búa enn við stórfellda skattheimtu með þessum hætti. Árið 2002 má til dæmis segja að framið hafi verið eitt stærsta bankarán sögunnar þegar ríkisstjórn Argentínu gekk á bak orða sinna um að menn fengju 1 bandaríkjadal fyrir hvern argentínskan pesó.

Einkaseðlabankar hafa starfað í ýmsum löndum í gegnum tíðina. Sem dæmi má nefna Skotland á árunum 1716 til 1844, Nýja England á árunum 1820 til 1860, Kanada á árunum 1817 til 1914 og Kína 1644 til 1928. Slíkir bankar hafa starfað í yfir 60 löndum. Þegar þessi saga eru skoðuð virðist útgáfa peninga á vegum einkabanka oftast hafa verið farsæl. Þar sem samkeppni var milli banka um seðlaútgáfu var það hagur bankanna að seðlum þeirra mætti skipta fyrir seðla annarra banka, á sama hátt og það er hagur banka í dag að viðskiptavinir geti tekið út fé í hvaða hraðbanka sem er.

Ákvörðun um hvaða gjaldmiðil menn nota á ekki frekar heima á borði ríkisstjórna en ákvörðun um annan neylsuvarning. Eða eins og Hayek orðaði það:

En ekki er óhugsandi, að menn geti framleitt peninga með öðru hugarfari; að fólk tæki betri peninga fram yfir verri. Samkeppni í framleiðslu peninga fæli í sér, að framleiðandi peninga missti viðskiptavini, þegar hann byði vonda peninga, og þeir tækju að skipta við aðra framleiðendur.