Þ
Framúrkeysla foreldra- og fæðingarorlofs hljóp á þúsundum milljóna á ári en þótti ekki sæta tíðindum. Ólíkt Grímseyjarferjunni sem fer einu sinni nokkur hundruð milljónir fram úr áætlun. |
að virðist ekki hafa tekist sérlega vel til við kaup á nýrri ferju fyrir Grímseyinga og gesti þeirra. Gamall ryðkláfur virðist eftir allt ekki hafa verið ný og glæsileg farþegaferja. Nokkur hundruð milljónir króna hverfa úr vösum skattgreiðenda að þessu tilefni. Þó ekki hljóðalaust því fjölmiðlar hafa sýnt málinu verulegan áhuga og spyrja sem von er hver beri ábyrgðina. Í DV í fyrradag var til dæmis kvartað undan því að á Íslandi sé „aldrei neinn hengdur“ fyrir mál af þessu tagi.
Árið 2000 voru sett ný lög um fæðingarorlof og samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins átti viðbótarkostnaður vegna laganna, þegar þau væru komin til fullra framkvæmda þremur árum síðar, að vera um 1.500 milljónir króna á ári. Árið 2004 var kostnaðaraukinn hins vegar 4.200 milljónir króna. Hann er nú kominn yfir 5.000 milljónir króna á ári. Framúrkeyrslan árið 2004 var 2.700 milljónir króna eða 180%. Ekki nokkur hundruð milljónir í eitt skipti eins og í tilfelli Grímseyjarferjunnar heldur nokkur þúsund milljónir á hverju ári um alla eilífð. Og útgjöld sjóðsins halda áfram að aukast ár frá ári. Skattgreiðendur hafa hvað eftir annað þurft að forða fæðingarorlofssjóði frá gjaldþroti því upphaflegar áætlanir reyndust tómt rugl. Um þetta hefur nær ekkert verið fjallað í fjölmiðlum, að minnsta kosti ekkert í líkingu við kjöldráttinn sem nú stendur yfir á þeim sem bera hugsanlega ábyrgð á ferjudæminu.
Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna eru nokkur hundruð milljónir í eitt skipti svo mikið merkilegri í hugum fjölmiðlamanna en nokkur þúsund milljónir á ári um aldir alda? Fara svona fáir fjölmiðlamenn til Grímseyjar en margir í fæðingarorlof?
Í tilfelli Grímseyjarferjunnar vill líka svo vel til að stjórnmálamennirnir hafa „ráðgjafa“ og undirmenn til að setja í gapastokkinn en fæðingarorlofsskandallinn var alfarið á ábyrgð stjórnmálamannanna sjálfra. Það ræður kannski einhverju um hve viljugir stjórnmálamennirnir eru að ræða málið.
ÞÞ etta leiðir einnig hugann að öðru máli. Árið 1997 vildu Samtök um tónlistarhús að skattgreiðendur byggðu fyrir sig eitt stykki tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.200 milljónir króna. Greiðslunni hefði mátt dreifa á tvö ár, 600 milljónir á hvort ár. Af þessu varð þó ekki því menn höfðu enn metnað í ríkisfjármálum á þessum árum og vildu halda aftur af eyðslunni. Nokkrum árum síðar var svo ákveðið með mjög dularfullum hætti að byggja tónlistarhús á reikning skattgreiðenda. Og reikningurinn? Jú árlega greiðsla verður vissulega 600 milljónir. En ekki í tvö ár eins og hefði verið ef húsið hefði verið byggt í Laugardal. Nei, næstu 35 árin munu skattgreiðendur leggja 600 milljónir á hverju ári í byggingu hússins niður við Reykjavíkurhöfn.