S veitarfélögin eru í fjársvelti. Svo segja að minnsta kosti ýmsir sveitarstjórnarmenn, allt frá Bolungarvík til Reykjavíkur, og heimta að sveitarfélögin fái hlut í fleiri sköttum. Sér til halds og trausts hafa þeir kollega sína úr þeirri hjörð sveitarstjórnarmanna sem tróðst inn í þingsali í kosningunum í vor. Kristján Þór Júlíusson fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og Gunnar Svavarsson fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar eru í þeim hópi. Þeir félagar fara nú fyrir fjárlaganefnd Alþingis, sem formaður og varaformaður. Þeir tóku báðir þátt í því að keyra útsvar í sveitarfélögunum, sem þeir stýrðu, upp í topp, út að mörkum hins löglega. Eftir að hafa blóðmjólkað skattgreiðendur heima í héraði eru þeir nú mættir á þing í leit að fleiri spenum.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra gefur hins vegar góð fyrirheit um að ekki verði orðið við þessum kröfum og hefur bent sveitarstjórnum á að spara ef fé skorti. Það þykja sveitarstjórnarmönnum mikil firn og mega vart mæla af hneykslun. Það er því afar mikilvægt að aðrir þingmenn styðji fjármálaráðherrann í þessari baráttu gegn sveitastjórnavarginum.
En hvernig er það annars, hafa sveitarfélögin haft litlar og minnkandi tekjur undanfarin ár? Hafa þau verið svelt eins og sveitarstjórnarmenn gefa til kynna í flestum fréttatímum um þessar mundir? Lítum aðeins á hvernig tekjur sveitarfélaga hafa breyst frá 1998 en þá voru liðin tvö ár síðan þau tóku við grunnskólanum af ríkinu svo það hefur ekki áhrif á þennan samanburð. Þessar tölur eru á verðlagi ársins 2005 og sýna tekjur sveitarfélaganna á hvern íbúa.
Tekjur sveitarfélaga hafa aukist um 50% að raunvirði á mann frá árinu 1998.
Tekjur hinna „fjársveltu“ sveitarfélaga hafa aukist um 50% að raunvirði á mann á síðustu 9 árum. Allt tal um fjársvelti er því hrein ósvífni og frekja. Þau hafa nú 50% meira til ráðstöfunar á hvern íbúa sinn en árið 1998. Ef þingið tekur mark á mönnum sem segjast vera í fjársvelti eftir að hafa aukið tekjur sínar um 50% þegar tekið hefur verið tillit við verðlags og fólksfjölgunar getur þingið allt eins hellt úr ríkiskassanum á Austurvelli. Ef fallist verður á þessar fráleitu kröfur sveitarstjórnarmanna um aukna skatta er ljóst að þeir hafa tekið völdin af Alþingi.