Í slenskir fjölmiðlar draga helst ekkert til baka af því sem þeir einu sinni hafa fullyrt. Aðfinnslum svara þeir með þögn, skætingi eða órökstuddri staðhæfingu að þeir standi við allt og vísi allri gagnrýni „til föðurhúsa“. Það eina sem þeir eru fúsir að leiðrétta eru nafnabrengl og önnur smáatriði sem hvorki verður deilt né efast um, en engum finnst neinu skipta nema einhverjum einum einhversstaðar.
Dæmigerðar leiðréttingar af þessu tagi voru í Morgunblaðinu í fyrradag. Ein þeirra er hins vegar umhugsunarverð og tengist máli sem Vefþjóðviljinn hefur rætt af og til á síðustu árum. Það er þetta fólk sem ekki bara kallar sjálft sig „leiðsögumenn“ heldur veit ekki annað mál merkilegra en að einhverjir aðrir fái ekki að gera slíkt hið sama. Að minnsta kosti var Morgunblaðið einhverra hluta vegna beðið um birta eftirfarandi og áríðandi leiðréttingu: „Þau mistök urðu í grein í Morgunblaðinu 26. júlí að Kjartan Pétur Sigurðsson var titlaður fararstjóri. Hið rétta er að Kjartan hefur lokið viðurkenndu námi frá Leiðsöguskóla Íslands og er því fagmenntaður leiðsögumaður. Beðist er velvirðingar á mistökunum.“
Já þetta eru stórkostleg mistök. Þetta er enginn aumur fararstjóri, maðurinn hefur lokið viðurkenndu námi frá Leiðsöguskóla Íslands. Þetta er fagmenntaður leiðsögumaður en enginn fakír.
Árum saman hefur hópur fólks barist fyrir því að hann einn fái að kalla sig „leiðsögumenn“ og að öðru fólki verði hreinlega meinað að fylgja ferðamönnum á vissa staði, nema að ljúka fyrst tilteknum prófum. Árum saman hefur Vefþjóðviljinn varað við því að látið verði undan kröfum þessa hóps – en sennilega tapast þessi barátta fyrir frelsinu eins og svo mörg önnur nú um stundir. Undanfarin ár hefur löggjafinn ítrekað látið undan lögverndunarkröfum þrýstihópanna og það yfirleitt af sömu ástæðunni: þó þrýstihópurinn sé fámennur þá er hann einbeittur og lifir fyrir baráttu-Málið sitt.
Ef að þessir úr „leiðsöguskólanum“ eru ekki búnir að ná lögvernduninni sinni í gegn, þá er eflaust stutt í að svo fari. Stjórnvöld eru núorðið sjaldnast á þeim buxunum að standa gegn þrýstihópum. En ef vel ætti að vera þá myndu þau hins vegar ekki einungis hafna lögverndunarkröfum þrýstihópanna heldur afnema þær lögverndanir sem knúðar hafa verið í gegn á síðustu árum.
En leiðréttingin um hinn útlærða leiðsögumann sem ekki er fararstjóri var ekki sú eina sem Morgunblaðið birti þennan dag. Fyrir neðan hana var önnur engu léttvægari: „Nafn Neil Klopfenstein misritaðist á baksíðu blaðsins í gær og er beðist velvirðingar á því“.
Þ eir sem vilja bætast í hinn góða hóp stuðningsmanna Andríkis og Vefþjóðviljans geta gert það með því að smella á hnappinn merktan Frjálst framlag. Kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni hefur frá upphafi verið greiddur með frjálsum framlögum lesenda. Sem er alveg eins og það á að vera.