Föstudagur 20. júlí 2007

201. tbl. 11. árg.

Í gær vék Vefþjóðviljinn að því nokkrum orðum að formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra er sjaldséður gestur á Íslandi um þessar mundir. Þannig nær hún að efna það fyrirheit sitt að draga úr ferðum utanríkisráðherrans – til Íslands.

Það er helst að gamla kvennalistakonan heiðri landann nú orðið með því að aka um götur Reykjavíkur á svörtum tveggja tonna SUV af þýskri eðalvagnsgerð sem fylgir embætti hennar. Hún strengdi einmitt heit um einkabílinn í ræðu í borgarstjórn árið 1987 þar sem hún sat sem fulltrúi kvennaframboðsins: „Og nú vona ég bara að menn geri nú hallarbyltingu í hugskoti sínu og steypi einkabílnum en setji manneskjuna í öndvegi í staðinn.“ Þetta hefur hún í heiðri og ekur um á bíl í eigu almennings en ekki á einkabíl.

Þrátt fyrir fjarvistir formannsins er óþarft að örvænta um afdrif Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún útskýrði það þegar hún valdi ráðherra í ríkisstjórnina í vor að varaformaður flokksins muni rífa flokksstarfið upp vítt um breitt um landið. Hann verður því miður of upptekinn við þá iðju til að vera ráðherra. Þar við bætist að varaformaðurinn er krati en ekki vinkona Ingibjargar úr Kvennalistanum og þar með auðvitað óhæfur til ráðherradóms.

Það eru sennilega ekki mörg dæmi um að varaformaður íslensks stjórnmálaflokks hafi ekki orðið ráðherra þegar flokkur hans komst í stjórn. Sú ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar að láta Ágúst Ólaf Ágústsson sitja utan stjórnar við það verkefni að semja lög og redda sal fyrir stofnfund samfylkingarfélagsins í Héðinsfirði hljómar í raun eins og áskorun til annarra forystumanna flokksins að velta Ágústi úr varaformannsstólnum á næsta landsfundi.

Ágúst Ólafur getur hins vegar áfram treyst á stuðning Vefþjóðviljans til vafaformennskunnar.