E ftir síðustu kosningar, þar sem Samfylkingin missti töluvert fylgi og það eftir tólf ára stjórnarandstöðu vinstrimanna, var ákveðið að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að utanríkisráðherra. Hún var þá í fjölmiðlum spurð að því hvort ekki yrði slæmt fyrir flokksformann að gegna ráðherraembætti sem kallaði af og til á ferðalög til útlanda. Ingibjörg Sólrún kunni vitanlega svör við því eins og öðru; hún myndi draga úr þessum ferðalögum.
Flott hjá henni – og myndi Vefþjóðviljinn eflaust vera búinn að fara með blóm og konfekt til hennar í viðurkenningarskyni, ef hún hefði einhvern tíma frá valdatöku sinni verið viðlátin hér á landi. Frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð utanríkisráðherra hefur hún eiginlega aðeins komið hingað til lands til þess að skipta um skó. Fyrir nú utan hefðbundnar Skandinavíuferðir, sem ekki þoldu nokkra bið, hefur hún sinnt ýmsum öðrum brýnum skyldum utanríkisráðherra Íslands, svo sem að sitja fund samtaka Afríkuríkja í Gana – og nýjasta gönuhlaup hennar er að fljúga með fríðu föruneyti til Ísraels þar sem hún spyr með galopin augun af hverju Ísraelar setjast nú ekki niður og semji beint við Hamas, sem að vísu stefna einkum að eyðingu Ísraelsríkis.
Enginn nennir ennþá að gera athugasemdir við þessi ferðalög, hvorki kostnaðinn né erindin.
Og ef einhver myndi spyrja þá yrði auðvitað svarað með því að vísa í furðuverkefnið „framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna“. Hversu lengi á sú vitleysa eiginlega að standa, og það með stórfelldum kostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur? Alveg óháð því hvaða möguleikar eru nú á því að Ísland verði kjörið til þess að eiga sendiherra í öryggisráðinu um skamma stund; hvers vegna í ósköpunum eiga íslenskir skattgreiðendur að eyða hundruðum milljóna í þetta draumaverkefni embættismannanna í utanríkisráðuneytinu, sem nú fljúga um allt í „kosningabaráttunni“? Af hverju á Ísland eiginlega að sækjast eftir þessu sæti? Hvaða minnimáttarkennd er það sem rekur stjórnmálamenn til þess að reyna að koma Íslandi í öryggisráðið?
Og ímyndi menn sér nú ef Ísland yrði kjörið þangað inn. Það yrði skemmtilegt að hlusta á spekingana við Austurvöll, hvern á fætur öðrum hafa meira vit á því en næsti maður hvernig Ísland eigi nú að greiða atkvæði og láta til sín taka.
Nennir ekki einhver að stöðva þessa vitleysu áður en verr fer?