Hér hefur áður verið vikið að hinu mjög svo auglýsta verkefni Kolviði sem nýtur stuðnings nokkurra opinberra aðila. Verkefnið hefur verið svo rækilega auglýst að kolefnisbindingin í dagblaðapappír undir auglýsingar þess fer líklega langt með að leysa loftslagsvandann svonefnda. En það er svo sem ekki nýtt að stór hluti kostnaðar við verkefni í nafni umhverfisins fari einmitt í að auglýsa hve góðir stuðningsaðilar þess eru við plöntur og dýr. Það er heldur ekkert við því að segja nema skattgreiðendum sé sendur reikningurinn.
Vefþjóðviljinn vakti á dögunum máls á því að sambærileg erlend fyrirbæri bjóða mun ódýrari kosti við kolefnisbindingu. Félög eins og TerraPass bjóða mun ódýrari kolefnisjöfnun en Kolviður. Það er því annað hvort hægt að spara sér fé eða fá mun meiri kolefnisbindingu með því að skipta frekar við hin erlendu félög.
Í gær ritaði Stefán Jón Hafstein fyrrverandi borgarfulltrúi með meiru grein í Fréttablaðið þar sem hann vakti athygli á því að sú leið Kolviðar að rækta skóg á Íslandi er ekki beinlínis hraðvirkasta leiðin að marki Kolviðar um bindingu kolefnis.
Í mínum bókum, sem eru venjulegar leikmannsbækur, er Ísland ekki mjög heppilegt land til skógræktar með yfirlýst markmið Kolviðar í huga. Tré vaxa vissulega á Íslandi, en mjög hægt og laufgunartími þeira er stuttur, þau eru því ekki „í vinnunni“ fyrir Kolvið nema fáar vikur árlega. Þau fara í vetrarfrí frá CO2 vinnslu 9-10 mánuði á ári.
Mörg önnur lönd eru heppilegri til að rækta skóg ef markmiðið er að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum. Það mætti því ná miklu meiri árangri í kolefnisjöfnun með því að nýta það fé sem Kolviður fær aflar á t.d. regnskógasvæðum, eða hjá fátækum bændum í Afríku. Raunar þarf alls ekki að planta nýjum trjám. Einfaldast er að kaupa núverandi skóga til verndar, en þeim er ógnað daglega. Mat vísindamanna er að árleg eyðing regnskóga sé nemi rúmlega hálfu Íslandi. |
Þetta er auðvitað rétt ábending hjá Stefáni Jóni. Það má ná miklu meiri kolefnisbindingu með skógrækt í hlýrra loftslagi.
Þess má svo einnig geta að samkvæmt Kyoto samningnum er aðferð Kolviðar ekki viðurkennd inn í svonefnt kolefnisbókhald Íslands og alveg óvíst hvað mikið og hvenær hún nýtist inn í bókhaldið.