Laugardagur 9. júní 2007

160. tbl. 11. árg.

N ýr formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, hefur verið duglegur við að minna á tilveru sína og vill vafalítið sýna að hann sé vel að formennskunni kominn. Í fyrradag hóf hann til dæmis utandagskrárumræður á Alþingi um Íbúðalánasjóð og hafði miklar áhyggjur af því að sjóðurinn yrði einkavæddur. Guðni beindi spurningum til Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, sem hótaði því að Íbúðalánasjóður yrði ekki einkavæddur á meðan hún stýrði félagsmálaráðuneytinu, og með þeim orðum lauk umræðunni.

Þessi umræða og svör félagsmálaráðherra rifja óneitanlega upp þá tíð þegar Jóhanna var síðast félagsmálaráðherra og stóð í vegi fyrir einkavæðingu annarra fjármálafyrirtækja, ríkisviðskiptabankanna Landsbanka og Búnaðarbanka. Fyrir réttum fimmtán árum – en þá var Jóhanna líka félagsmálaráðherra – flutti hún til dæmis ræðu á flokksþingi Alþýðuflokksins gegn einkavæðingu bankanna og sá henni flest til foráttu. Tveimur árum síðar sagði hún sig úr Alþýðuflokknum, meðal annars vegna harðrar afstöðu gegn einkavæðingu bankanna, og stofnaði Þjóðvaka. Það kemur þess vegna engum á óvart þó að Jóhanna Sigurðardóttir beiti sér gegn því að rekstur fyrirtækja, sérstaklega fjármálafyrirtækja, verði færður frá ríkinu til einkaaðila. Þetta hefur verið henni hjartans mál um árabil og litlu breytir í því sambandi hversu marga flokka hún mátar.

Fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins telur að tími sé kominn á núverandi  forystu flokksins.

Guðni og Jóhanna eru langt því frá andstæðir pólar þegar kemur að einkavæðingu fjármálafyrirtækja. Bæði beittu þau sér gegn einkavæðingu bankanna á meðan hún var mest rökrædd á tíunda áratugnum og verður seint hægt að þakka þeim þær framfarir og kjarabætur sem orðið hafa hér á landi á síðustu árum. Einkavæðing bankanna, skattalækkanir og önnur skref í frjálsræðisátt hefðu ekki verið stigin ef sjónarmið Jóhönnu eða Guðna hefðu orðið ofan á síðustu árin. Og það er óneitanlega eins og bergmál úr fortíðinni að heyra þau tvö standa á öndinni yfir hættunni af einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að lesa sjónarmið fyrrverandi varaformanns Framsóknarflokksins, Finns Ingólfssonar í viðtali við Viðskiptablaðið í gær. Þar segir Finnur að yngja þurfi upp í forystu flokksins og ekki fer á milli mála að hann telur rétt að Guðni staldri stutt við í formannsstólnum. Hann segir einnig að hægt hefði verið að halda ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn áfram eftir kosningar ef rétt hefði verið haldið á málum, og á honum er að skilja að Guðni beri mikla ábyrgð á því að Framsóknarflokknum tókst þetta ekki.

Það er því ljóst að Guðni er umdeildur innan flokksins og það má búast við hann haldi áfram að reyna að skora pólitísk stig með upphlaupum á Alþingi. Hins vegar er ósennilegt að það verði til að lengja formannstíð hans eða líf Framsóknarflokksins ef hann ætlar að halda áfram að standa eins og nátttröll í ræðustóli Alþingis og lesa upp úr gömlum ræðum þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur.