H ótel Saga hefur ódæmt samþykkt að greiða bætur til þess fólks sem „hótelið“ braut nýlega samninga á og neitaði um gistingu, eftir að bandalag forræðishyggjumanna og púrítana hafði tekið forskot á gildistöku tóbaksvarnarlaganna með því að fara yfirum vegna væntanlegrar skemmtiferðar blámyndaframleiðenda hingað til lands. En „hótelið“ tekur fram að með greiðslunum sé það hreint ekki að viðurkenna neina sekt í málinu.
Svo þetta eru þá meira svona frjáls framlög til blámyndagerðar. Og verða sjálfsagt nýtt til að gera myndir sem sýndar verða gestum Hótels Sögu.
D agblöðin birta nú auglýsingar þar sem borgurunum er sagt að safna saman dagblöðum á heimilum sínum og bruna með þau á Sorpu eða í „næsta pappírsgám“.
Látum nú vera með áskriftarblöðin sem fólk kaupir til sín. En hversu lengi verður það eiginlega látið óátalið að árlega séu borin inn fyrir dyr fólks tugir kílóa af dagblaðapappír án þess að nokkur maður hafi óskað eftir því? Fyrst er þessi pappír borinn inn á heimilin hjá fólki, og ef það opnar blöðin, sem það hefur ekki beðið um, þá blasa við auglýsingar þar sem því er skipað að vera umhverfisvænt og skila þessu öllu flokkuðu og fínu á endurvinnslustöðvar. Fríblöðin eru að sögn útgefenda sinna vinsæl, mikið lesin og eftirsótt. Hvers vegna geta þau þá ekki látið sér nægja að fara inn á þau heimili þar sem þeirra yrði óskað? Hvað myndu menn segja ef Vefþjóðviljinn sendi sjálfan sig á hverjum morgni í tölvupósti á hverja einustu tölvupóstáritun landsins?
S umt breytist aldrei. Til dæmis Össur Skarphéðinsson. Á þinginu í vikunni ataðist nýr þingmaður vinstrigrænna, Álfheiður Ingadóttir, í Össuri fyrir það að nú væru tveir menn en ekki einn í því að stýra iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Össur svaraði af hefðbundnum krafti og skrifaði síðar frásögn og birti um frækna frammistöðu sína:
Álfheiður gerði virðingarverða og ágætlega heppnaða tilraun til að vera sniðug – sem er alltof sjaldgæft með núverandi stjórnarandstöðu – og skopaðist að því að viðskiptaráðuneytið yrði svo lítið að það tæki því ekki að hafa sérstakan ráðherra yfir því. Mér hló hugur í brjósti, og snaraðist í andsvar.
Ég leyfði mér að fara í sögulega upprifjun og upplýsti hana um að um mjög langa hríð var jafnan sérstakur viðskiptaráðherra. Rúsínan í pysluenda ræðu minnar var að minna hana á að síðasti maðurinn sem gegndi þeirri ráðherrastöðu einni hefði einmitt verið leiðtogi alls hennar pólitíska lífs – Svavar Gestsson, núverandi sendiherra! |
Rúsínur eru yfirleitt best geymdar annars staðar en í pylsuendum. Síðasti maður til að gegna viðskiptaráðuneytinu einu var ekki Svavar Gestsson heldur Tómas Árnason. Enn síðar var Matthías Á. Mathiesen svo viðskiptaráðherra ásamt því að stýra annasömu ráðuneyti hagstofu Íslands.