Á heimasíðu Seltjarnarnessbæjar er að finna frétt sem er því miður svo að segja einsdæmi á heimasíðum hins opinbera. Fréttin segir frá skattalækkunum á Nesinu og samkvæmt henni þá flutti meirihluti sjálfstæðismanna tillögu þann 9. maí síðastliðinn sem fól í sér lækkun skatta.
Þeir sem fylgjast mjög nákvæmlega með fjölmiðlum hafa ef til vill rekist einhvers staðar á frétt um þessa skattalækkun, en þó má draga það í efa, svo lítið hefur farið fyrir fréttaflutningi af málinu. Á sama tíma hefur þótt afar fréttnæmt að fáeinir íbúar Mosfellsbæjar amist við framkvæmdum í bæjarfélaginu og viðtöl við þá hafa fengið mikið rými í fjölmiðlum. Líklega er þetta gert til að verðlauna þá fyrir að framleiða gott myndefni með eignaspjöllum og annarri vafasamri framkomu.
Ef fréttamenn hefðu fréttanef þætti þeim líklega athyglisvert að mitt í grátkór sveitarstjórnarmanna skuli vera til bæjarfélag sem er það vel rekið að það getur lækkað skatta á íbúana. Því er oft haldið fram – og með nokkrum sanni – að það sé helst fréttnæmt sem víkur frá hinu venjulega. Hvers vegna það er sem fréttamenn átta sig ekki á, að það er fréttnæmt að skattalækkun komi fram á sama tíma og flestir sveitarstjórnarmenn heimta auknar heimildir til skattlagningar, skal ósagt látið.
Þróunin á Seltjarnarnesi annars vegar og í flestum öðrum sveitarfélögum hins vegar er, þrátt fyrir áhugaleysi fjölmiðlamanna, mikið umhugsunaefni. Sveitarstjórnarmenn hafa allt of lengi komist upp með að sólunda skattfé og hækka skatta í framhaldinu. Þeir eru nú flestir komnir að efri mörkum heimildar sinnar til álagningar útsvars og krefjast þess að fá auknar heimildir. Því er oftast sýndur mikill „skilningur“að hækka þurfi skattlagningarheimildir sveitarfélaga, en hvernig væri nú að menn veltu því fyrir sér hvort ekki sé hægt að spara í rekstri sveitarfélaganna? Eða dettur einhverjum í alvöru í hug að allar stofnanirnar, stofurnar, fulltrúarnir, ráðin og nefndirnar séu brýn nauðsyn? Ætli einhver óbrjálaður maður láti sér detta í hug að ekki sé hægt að spara í rekstri sveitarfélaganna í stað þess að hækka skatta?
Þar sem Vefþjóðviljinn vill ekki bera ábyrgð á aukinni útþenslu opinberra stofnana telur hann vissara að svara ekki síðustu spurningunni.