E inn mesti íþróttaafreksmaður landsins, þó ekki fari sérstaklega hátt, er hagfræðingurinn Gunnlaugur Júlíusson. Árangur hans í lang- og þolhlaupum er með hreinum ólíkindum – og þar að auki heldur hann úti heimasíðu þar sem af og til er fjallað um þjóðmál með sjaldgæflega skynsamlegum og yfirveguðum hætti. Síðustu daga hafa færslur hans þó flestar fjallað um hlaup enda Gunnlaugur nýkominn úr ferð á Borgundarhólm þar sem hann hljóp tæpa tvöhundruð kílómetra á einum sólarhring.
Undirbúningur hans fyrir hlaupið var þó ekkert sérstakur, eða eins og hann segir á heimasíðu sinni:
Ég hafði ekki æft vel í vetur. Samtals hafði ég hlaupið tæpa 1000 km frá áramótum sem er ekki mikið. |
Nei, hann hafði ekki hlaupið nema þúsund kílómetra frá áramótum. Það er eins og frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal.
Ef menn fara norðurleiðina.
Annars staðar á síðu sinni veltir Gunnlaugur fyrir sér stjórnmálaumræðunni nú fyrir kosningar:
Eitt finnst mér vanta í umræðunni nú fyrir kosningar. Hvernig ætla flokkarnir að fjármagna öll loforðin og hvað vilja þeir hafa skattlagninguna háa á almennar launatekjur? Það þýðir ekki að sístaglast á því hvað öryggisnetið sé þétt riðið í Svíþjóð og vilja taka allt upp sem þar er að finna en velta ekki fyrir sér hvernig á að fjármagna herlegheitin. Í Svíþjóð tekur hið opinbera til sín um 60% af almennum launatekjum almennings. Viljum við búa í slíku samfélagi? Alla vega ekki ég. |
Annars staðar segir hann:
RÚV kemur manni sífellt minna og minna á óvart. Í gær var verið að ræða um fjármuni sem höfðu verið teknir frá til aðgerða til hagsbóta fyrir geðfatlaða. RÚV flutti manni þann boðskap í kvöldfréttum í gær að einn og hálfur milljarður væri brunninn upp vegna verðbólgu og sökum kostnaðar við skýrslugerð. Púff; horfinn og farinn. Síðan var rætt við formann geðlæknafélagsins. Í máli hans kom ekkert fram sem studdi þessar staðhæfingar. Skoðum þetta aðeins nánar. Á síðustu tveimur árum hefur verðbólgan kannski verið um 15% samtals (sem er of hátt í sjálfu sér). 15% af 1,5 milljarði er 225 milljónir. Segjum því að raungildi þess sem eftir stendur sé um 1275 milljónir. RÚV var því að segja að það hefðu farið nær 1300 milljónir í skýrslugerð ef allt væri brunnið upp og horfið!!! Hvar eru kröfurnar sem gerðar eru um fagmennsku við fréttamennsku hjá stofnuninni? |