Þ að er örugglega fátt á vef Hagstofunnar sem gleður stjórnarandstöðuna nú rétt fyrir kosningar og raunar eru líklega fáar íslenskar hagtölur yfirleitt sem kæta stjórnarandstöðuna. Hún situr uppi með það að hafa verið á móti flestu því sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahagsmálum, þar með talið því sem mestu skiptir um að hér hefur verið mikið góðæri árum saman, það er að segja einkavæðing og skattalækkanir. Stjórnarandstaðan situr uppi með að hafa hamast gegn öllum umbótum og getur nú ekki eignað sér neitt af þeirri jákvæðu efnahagsþróun sem kjósendur búa við en reynir þess í stað að láta kosningarnar snúast um allt annað en mikilvægustu hagsmunamál kjósenda. Þetta hefur reyndar ekki gengið mjög vel, en stjórnarandstaðan neitar engu að síður að viðurkenna hvað það er sem gagnast hefur best, skattalækkanir og aukinn hlutur einkarekstrar. Það eru því litlar vonir til að umbætur haldi áfram fái stjórnarandstaðan tækifæri til að koma stefnu sinni í framkvæmd.
En lítum aðeins á eina hagstærð sem stjórnarandstaðan mun ekki leggja áherslu á í kosningabaráttunni þó að þetta sé sú stærð sem ein sér skiptir almenning mestu. Hagstofan sendi á mánudag frá sér nýjar tölur um kaupmátt heimilanna í landinu og þar kom fram að kaupmáttur hér á landi jókst um 56% á árunum 1994-2005. Aukning kaupmáttar heimilanna lýsir í grófum dráttum hversu miklu meira menn hafa á milli handanna þegar tekið hefur verið tillit til skatta, bótakerfis, verðbólgu og fleiri þátta.
Þessi rannsókn nær eins og áður segir aðeins til ársins 2005, en kaupmáttur hefur haldið áfram að vaxa síðan þá. Jafn nákvæm gögn og notuð voru í fyrrnefndri rannsókn liggja ekki fyrir en þróun launavísitölu og verðbólgu, sem einnig má finna á vef Hagstofunnar, gefur sterka vísbendingu um hvernig þróunin hefur verið frá 2005. Sé aukningu kaupmáttar launa frá árslokum 2005 og fram til mars á þessu ári bætt við aukningu kaupmáttar heimilanna á árunum 1994-2005 má sjá að kaupmáttaraukningin frá 1994 og þar til nú er um 66%.
Þetta þýðir með öðrum orðum að maður sem hafði 100 þúsund krónur í útborguð laun eftir skatta árið 1994 hefur nú 166 þúsund krónur og þá er búið að taka verðbólguna með í reikninginn. Maður sem fékk 150 þúsund krónur útborgaðar fær nú 249 þúsund krónur. Ef farið hefði verið að ráðum stjórnarandstöðunnar og skattar ekki verið lækkaðir og ríkisfyrirtæki ekki verið einkavædd, þá hefði þróunin aldrei verið neitt þessu lík. Sem er sennilega helsta ástæða þess að stærstum hluta kjósenda, ef marka má skoðanakannanir, finnst vinstri stjórn óskemmtileg tilhugsun.