A
Lúðvík Geirsson bæjarstjóri sagði Hafnfirðingum hiklaust skoðun sína í íbúakosningum árið 2005. Voru það óeðlileg afskipti af lýðræðinu? |
lveg er hún mögnuð, frammistaða Samfylkingarforystunnar í Hafnarfirði. Því meira sem um hana er hugsað, því furðulegri er hún.
Það lætur nærri að allir Hafnfirðingar nema sex séu tilbúnir að segja skoðun sína á því hvort leyfa eigi stækkun álversins í Straumsvík. Allir nema sex séu ef í það fer tilbúnir að segja kost og löst á hugmyndinni og svo það hvaða niðurstöðu þeir persónulega komust að. Og bilunin er sú, að þessir sex hafa sérstaklega boðið sig fram til þess að sýsla með málefni Hafnarfjarðarbæjar. Og þeir fara með það eins og hernaðarleyndarmál hvaða afstöðu þeir sjálfir hafa til þessa mesta álitamáls bæjarins síðustu áratugina. Það er kannski að því að þeir hafa her sérfræðinga á launum hjá bænum til að hjálpa sér að taka afstöðu í málum af þessu tagi.
En þó þeir verði seint sakaðir um hugrekki, Samfylkingarbæjarfulltrúarnir sex, þá eru þeir þó hugmyndaríkir þegar kemur að því að finna afsakanir fyrir að segja ekki skoðun sína á málinu. Nýjasta afsökunin er sú, að úr því að málið hafi verið lagt í atkvæði bæjarbúa þá eigi kjörnir fulltrúar alls ekki að segja sína skoðun; slíkt væri mjög óeðlilegt.
Sú afsökun er vitaskuld fjarstæða. Og um það má taka tvö dæmi:
Í fyrsta lagi: hverjum dytti í hug, að ef ákveðið væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu, að þá myndu stjórnmálaflokkarnir fara með afstöðu sína eins og trúnaðarmál? Að það væri stórkostlega óviðeigandi ef kjörnir fulltrúar segðu skoðun sína á máli sem hefði verið „vísað til þjóðarinnar“?
Og svo skýrt dæmi sé tekið um kosningar innan ákveðinna sveitarfélaga: Hvenær hefur það gerst, að kjörnir sveitarstjórnarmenn neiti ákaft að segja skoðun sína á kosningum um sameiningu sveitarfélaga? Þar er þó mál þar sem endanleg ákvörðun á, að nafninu til að minnsta kosti, að vera í höndum íbúanna en ekki sveitarstjórnarmanna. Ef að Hafnarfjarðarkratar meintu orð af því sem þeir bera fyrir sig til að þurfa ekki að segja skoðun sína á stækkun álversins í Straumsvík, þá þætti þeim ekki koma til greina að sveitarstjórnarmenn segðu neitt sem gæti haft áhrif á það hvernig íbúarnir kjósa um sameiningarmál sveitarfélaga.
Árið 2005 var efnt til kosninga um sameiningu ýmissa sveitarfélaga. Meðal þeirra tillagna sem kosið var um, var tillaga um sameiningu Voga og Hafnarfjarðarbæjar. Í Morgunblaðinu var rætt við ýmsa um ágæti tillögunnar sem kosið yrði um. Einn þeirra lá ekki á skoðun sinni um málið heldur sagði harður:
Ég held að menn eigi að hugsa stórt og hugsa til framtíðar. Ég er sannfærður um það að hér sé um mjög jákvæðan og skynsamlegan kost að ræða fyrir alla aðila og þetta styrki og efli þjónustu og starfsemi hér, ekki síst í Vogunum, gagnvart höfuðborgarsvæðinu. |
Þessi ábyrgi sveitarstjórnarmaður, sem auðvitað var maður til að segja skoðun sína, heitir Lúðvík Geirsson.