Þ að hefur auðvitað legið ljóst fyrir frá því blásið var til „íbúakosningar“ í Hafnarfirði um breytingar sem hafa verið í undirbúningi hjá álverinu í Straumsvík í mörg ár að viðbrögð bæjarstjórnarinnar yrðu ekki þau sömu hver sem úrslit yrðu. Aðrir stjórnmálamenn, líkt og formaður Samfylkingarinnar, ætluðu einnig að gera tilraun til að fikta í niðurstöðunum ef þær yrðu sér ekki að skapi. Formaður Samfylkingarinnar lýsti því einfaldlega yfir að samþykktu Hafnfirðingar stækkun álversins myndi Samfylkingin reyna að stoppa málið kæmist hún í ríkisstjórn í vor.
Þótt bæjarstjórinn í Hafnarfirði og meirihluti hans í bæjarstjórninni hafi ekki viljað segja bæjarbúum skoðun sína á máli sem þeir hafa verið að undirbúa með álverinu árum saman þarf auðvitað ekki að fjölyrða um afstöðu þeirra. Þeir kusu hins vegar að fara hina hefðbundnu Samfylkingarleið að láta sig fljóta með straumnum og bíða úrslita í þessari miklu könnun afstöðu bæjarbúa.
Niðurstaðan varð þeim þvert um geð og það með miklum naumindum.
Það kemur því engum á óvart að Lúðvík Geirsson bæjarstjóri ítrekar nú það sem hann hefur áður sagt að þessari niðurstöðu verði ekki hnekkt – á þessu kjörtímabili. Og það eru einungis 37 mánuðir þar til því lýkur. Það er heldur ekki útilokað að kosið verði um nýja útfærslu áður en kjörtímabilið er úti.
Að þessu leyti verður „íbúalýðræðið“ oftast skrípaleikur. Stjórnmálamenn geta látið kjósa aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Eða eins og í þessu tilviki, einfaldlega beðið í þrjú ár og tekið þá sjálfir ákvörðun um að hnekkja niðurstöðunni. Kjósendur eru dregnir á asnaeyrunum.
Annað sem vakti nokkra undrun þegar leið að kosningunum á laugardaginn var að tillagan sem lögð var fyrir íbúa Hafnarfjarðar virtist munaðarlaus. Tillagan virtist með öðrum orðum ekki vera lögð fram af þeim sem efndu til kosninganna. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að bæjarstjórn gangist við þeim tillögum sem hún leggur fyrir íbúa og standist þar með þær kröfur sem bæjarfélagið gerir til mála. Þetta munaðarleysi kom meðal annars fram á sjálfum kjörseðlinum. Á honum mátti skilja að tillaga um deiliskipulag hefði dottið af himnum ofan.
Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri breytti viðmiðunarmörkum sem hún sjálf hafði sett um flugvallarkosninguna svonefndu eftir að úrslit lágu fyrir mátti skilja það sem svo að Reykvíkingar hefðu kosið flugvöllinn burt. Flugvöllurinn er á sínum stað. Því er spáð hér að innan skamms verði álverið í Straumsvík búið að auka framleiðslugetu sína verulega.
Á
Chegrímur víkur nú fyrir hinum prúða sveitapilti úr Þistilfirðinum. |
dögunum vakti Vefþjóðviljinn athygli á því að á vef Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs væri mynd af Steingrími J. Sigfússyni í gervi morðingjans Che Guevara. Á myndinni, sem sjá má hér til hliðar, var áskorun um að „styrkja flokkinn“ og mun þar hafa verið átt við VG frekar en kommúnistaflokkinn á annarri eyju suður í höfum sem Che átti líka þátt í að koma á legg fyrir nær hálfri öld. Nú er hins vegar búið að fjarlægja Chegrím af síðunni. Þetta er áhugavert og í stíl við margt annað hjá VG eftir að flokkurinn fór á flug í könnunum um fylgi flokkanna. Hvarvetna má nú sjá forystumenn flokksins kasta róttækninni fyrir borð. Nærbolirnir góðu með Chegrími hafa horfið undir pressuð jakkaföt og hálstau. Vinstri grænir sitja nú eins og feimnir fermingardrengir í umæðuþáttum í þeirri von að fylgið hrynji ekki af þeim fyrir kosningar.