Mánudagur 2. apríl 2007

92. tbl. 11. árg.

Sennilega eru niðurstöður álverskosningarinnar í Hafnarfirði eitt skýrasta táknið sem lengi hefur sést um breytingarnar sem orðið hafa á lífskjörum Íslendinga á síðustu árum. Svo mjög hefur íslenskt efnahagslíf breyst til hins betra, að þeir eru nú margir sem vart vita lengur af því að ástandið hafi nokkurn tíma verið annað en gott. Undanfarin ár hafa landsmenn búið við samfelldan uppgang, með síauknum kaupmætti bæði tekna launafólks og bóta þeirra sem þær þiggja. Skattar hafa auk þess verið lækkaðir, höft afnumin og frelsi aukið á ótal sviðum svo fleiri og fleiri eiga þess kost að grípa tækifæri og hasla sér völl. Ótrúlega margir landsmenn hafa vanist þessum jákvæðu breytingum svo vel, að þeim dettur ekki lengur í hug að frelsið og tækifærin séu ekki jafn sjálfsögð og örugg og Akrafjall.

Þó eru ekki ýkja mörg ár síðan atvinnuleysi var vandamál vandamálanna. Þúsundir manna voru án vinnu, reknar voru „miðstöðvar fólks í atvinnuleit“, flokkar buðu fram til þings með loforð um að skapa svo og svo mörg ný störf, til voru sérstök Samtök atvinnulausra – og urðu raunar ekki síst fræg þegar þau lokuðu vegna sumarleyfa – og þannig mætti lengi telja. Á þeim dögum hefði ekki nokkrum vitibornum manni dottið í hug að hafna stækkun álversins í Hafnarfirði, fyrirtækis sem skapar hundruðum manna eftirsótt og vel launuð hátæknistörf. Og miklum fjölda fólks störf í fyrirtækjum sem lifa á því að selja álverinu ýmsa þjónustu.

Það er svo langt síðan að Íslendingar hafa setið uppi með vinstristjórn, að nú telja margir sig hafa vel efni á munaði eins og þeim að banna hreinlega slíku atvinnufyrirtæki að stækka!

Og sú staðreynd, að svo langt er frá síðustu vinstristjórn að margir kjósendur hafa gleymt henni og, það sem enn hættulegra er, að þúsundir kjósenda hafa enga persónulega minningu um vinstristjórn, gerir það að verkum að með hverjum deginum eykst hættan á að ný vinstristjórn verði lögð á Íslendinga.

Síðasta vinstristjórn, skipuð stjórnmálamönnum eins og Steingrími J. Sigfússyni, Steingrími Hermannssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni og fleiri slíkum, reyndist landsmönnum þannig að fáir sem muna ættu að vilja endurtaka leikinn. Skattar voru hækkaðir, skuldir auknar, kaupmáttur beinlínis lækkaði – og kaupmáttur bóta lækkaði enn meira en kaupmáttur launa. Á þetta horfðu ráðherrarnir sallarólegir. Félagshyggjumennirnir, þeir sem látlaust tala nú um nauðsyn nýrrar „velferðarstjórnar“, horfðu aðgerðalausir upp á kaupmátt bóta aldraðra og öryrkja lækka, en koma nú reiðir í sjónvarp og gagnrýna núverandi stjórnvöld harðlega. Af því að stöðug lífskjarabót hins almenna manns verður óhjákvæmilega með þeim hætti að lífskjör fólks batna misjafnlega hratt, þá heitir hún ekki lífskjarabót í orðabók vinstristjórnarsinna. Í þeirra skruddum sjást sjaldnast önnur hugtök en „aukin misskipting“ og „græðgisvæðing“.

Lausnin á „aukinni misskiptingu“ er svo ný „velferðarstjórn“. Í kosningunum í næsta mánuði verður reynt að selja kjósendum þá hugmynd, í þeirri von að nægilega mörgum sé nú ókunnugt um að valkosturinn við ójafna dreifingu gæða er jöfn dreifing ömurleika.