Laugardagur 10. febrúar 2007

41. tbl. 11. árg.

H örð en lýsandi deila er komin upp milli Blaðamannafélags Íslands og menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið mun áratugum saman hafa þurft að skipa mann og annan til vara fyrir hönd Íslands í einhvers konar sérfræðinganefnd norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar og jafnan leitað áður tillagna frá Blaðamannafélagi Íslands um hverjir þessir menn skyldu vera. Þetta gerði ráðuneytið á dögunum en nú er Blaðamannafélagið sótsvart af vonsku yfir því að í þetta sinn skyldi ráðherrann leyfa sér að fara ekki eftir tilnefningunni heldur valdi allt annað fólk en stjórn Blaðamannafélagsins vildi. Félagið segir að þetta sé algert stílbrot, en hin norrænu ráðuneytin fari jafnan eftir tillögum blaðamannafélags hvers lands. Með öðrum orðum, þeim þykir að „tillaga“ sé bara sætt orð yfir „ákvörðun“.

Þó Blaðamannafélagið sé bálvont að fá ekki að ráða þessu, þá er ákvörðun menntamálaráðherra fagnaðarefni. Það er að segja ef hún er ekki einstakt mál heldur vísbending um að stjórnvöld ætli að rísa upp frá ofurvaldi „sérfræðinga“ og „fagaðila“. Allt of oft láta menn, fréttamenn ekki síst, eins og það sé bara sjálfsagt að lýðræðislega kjörin stjórnvöld séu stimpilpúði fyrir „fagmenn“ úti í bæ; að það sé alltaf tortryggilegt en oftast hneyksli ef ekki er farið eftir áliti einhverja umsagnaraðila „í geiranum“.

Það er þvert á móti beinlínis æskilegt að á sem flestum sviðum ráði þeir, sem fyrir eru, sem minnstu um það hverjir bætast í hópinn. Það stuðlar að einsleitni, gagnrýnisleysi og klíkumyndun á hverju sviði ef að inngangurinn þangað verður ætíð í gegnum nokkra höfðingja sem eru á fleti fyrir, ef það eru höfðingjarnir í geiranum ráða því hverjir eru teknir inn. Þeir sem gagnrýnt hafa ríkjandi viðhorf í geiranum, þeir sem líklegir eru til að rugga bátnum, þeir verða aldrei tilnefndir eða mælt með af þeim sem hafa búið um sig. Slíkar tilnefningar og meðmæli eru ekki vitund „faglegri“ en þær ákvarðanir sem lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn taka, því þó „fagmennirnir“ setji boðskap sinn iðulega í langt mál með tilkomumiklum orðum, þá eru þeir yfirleitt að tilnefna vini og kunningja, eða einhverja sem líklegir eru til þess að verða það. Það er engin ástæða til að ætla, að stjórnmálamaður sem býr við sífellda gagnrýni fjölmiðla og stjórnarandstöðu hverju sinni, sé „spilltari“ en „fagmaður“ sem veit að hann er „fagmaður“ og verður einskis spurður og aldrei gagnrýndur.

Þetta sjá margir. Magnús Thoroddsen, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, hefur til dæmis varað við því að Hæstiréttur verði „sjálftímgandi“, það er að segja að dómarar sem fyrir eru hafi allt of mikil áhrif á það hverjir bætast í hópinn, sem aftur leiðir til þess að metnaðargjarnir lögfræðingar forðast eins og heitan eldinn að komast upp á kant við þá sem þar hafa búið vel um sig. Úr háskólanum er þekkt að þeir sem komnir eru að kjötkötlunum ráða mestu um það hverjir komast að sem kennarar, sem hvetur unga og metnaðargjarna fræðimenn kannski ekki sérstaklega til að taka verk háskólakennara fyrir af gagnrýni. Þannig mætti áfram telja.

Það er ósjaldan versta mögulega niðurstaða að fara að tillögum, umsögnum og ábendingum. Engu að síður eru fréttamenn iðulega mættir ef ráðherra „hunsar“ umsögn einhvers faghópsins. En hefur nokkur maður heyrt fréttamann eltast við slíka klíku úr einhverjum geira og spyrja af hverju þessi sé tilnefndur en ekki hinn?

K ristinn H. Gunnarsson er genginn úr Framsóknarflokknum og yfir í Frjálslynda flokkinn og meðalgreindarvísitala snarhækkar á báðum stöðum. Þessi vistaskipti eru mjög eðlileg enda eiga flokkarnir ekkert sameiginlegt annað en það að í forystu þeirra eru margir sem hafa enga trú á Kristni H. Gunnarssyni. Eins og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður rifjar upp á heimasíðu sinni, þá hafa helstu forystumenn frjálslyndra á undanförnum árum ítrekað lýst því yfir að Kristinn sé „svikari“ sem, svo vitnað sé í Magnús Þór Hafsteinsson, ætti „aldrei að eiga skilið traust kjósenda í framtíðinni“. Nú hafa frjálslyndir fengið enn eina sönnunina fyrir sviksemi Kristins þegar þeir taka við honum úr hans fimmtánda flokki. Er það vænn liðsauki fyrir flokkinn, sem byggir tilveru sína eingöngu á mönnum sem hafa hlaupist undan merkjum í öðrum flokkum en á við það heimilisböl að búa að einn þekktasti forystumaður hans sveik lit á dögunum og fór úr flokknum. Þótti fyrrum félögum hennar það ódrengilega gert.