Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fjallaði um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík, á aðalfundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur, 27. janúar 2007. |
Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fjallaði um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík, á Alþingi 6. febrúar 2007. |
Íræðu sinni á aðalfundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur taldi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að skýringin á stöðugt minnkandi fylgi Samfylkingarinnar undanfarin misseri tengdist ekki á neinn hátt því að flokkurinn og forysta hans væri ótrúverðug. Skýringarinnar væri mun frekar að leita í yfirburðum flokksins yfir aðra landsmenn. Samfylkingin væri nefnilega alltaf að setja nýjar hugmyndir á dagskrá, væri svo pólitísk að sauðsvartur almúginn næði bara ekki þangað upp. Við þorum meðan aðrir þegja sagði Ingibjörg Sólrún og gerði þannig hið gamla slagorð Ekstrablaðsins danska að sínu.
Það er kannski rétt, að hluti af fylgisleysi Samfylkingarinnar er að fólk sér að flokkurinn er alltaf „að setja nýjar hugmyndir á dagskrá“. En ekki í þeirri merkingu sem núverandi formaður hans vill vera að láta. Samfylkingin segir eitt í dag og annað á morgun, og þannig hefur það verið alla sögu hans. Það er aðeins örlítið og til þess að gera saklaust dæmi að í lok janúar setji Ingibjörg Sólrún þá hugmynd á dagskrá að það sé algerlega óviðeigandi að formaður stjórnmálaflokks setji fram skoðun eða reyni að hafa áhrif á hugsanlega stækkun álvers. En kveðji sér hljóðs á Alþingi viku síðar með þá hugmynd að það verði að taka í taumana með þessar stækkunarhugmyndir.
Samfylkingin hefur alla sína tíð verið í eltingarleik við skoðanakannanir. Rétt eins og R-listinn sem var stofnaður vegna einnar slíkrar. Eftir langa mæðu og mælingar greiddi Ingibjörg Sólrún fyrir því í borgarstjórn að Kárahnjúkavirkjun var fjármögnuð, en R-listanum hefði verið í lófa lagið að stöðva framkvæmdina – og ekki gerðu fulltrúar vinstrigrænna það mál að neinu úrslitaatriði frekar en nokkur sem til þekkir bjóst við. Þegar Ingibjörg Sólrún fór um Austurland í síðustu kosningabaráttu dreifði Samfylkingin myndum af henni þar sem hún stillti sér upp við merki Alcoa og brosti út að eyrum. Þegar síðan eru í Reykjavík haldnir tónleikar gegn álversbyggingum þá breytist stefna Samfylkingarinnar samhliða. Svona er þessi flokkur í hverju málinu á fætur öðrum.
Og hvernig eru vinstri grænir, eru þeir ekki miklu málefnalegri? Þar eru umhverfismálin nú ekkert samkomulagsatriði? Einmitt það? Ekki gerðu fulltrúar vinstrigrænna í R-listanum neitt þó borgin tryggði fjármögnun Kárahnjúkavirkjunar. Þeir sátu glaðbeittir áfram í meirihlutanum og nutu valdastólanna. Ekki vill Steingrímur J. Sigfússon að hinn fallegi Héðinsfjörður verði látinn í friði fyrir jarðgöngunum sem svo vinsæl eru í kjördæmi hans. Nei, nei, hraðbraut yfir eyðifjörðinn og göt í fjöllin beggja vegna. Ekki sáu vinstrigrænir neitt að því innan R-listans að Háskólinn í Reykjavík fengi að reisa risabyggingu með þúsundogeinu bílastæði við rætur Öskjuhlíðar; ekki vildu þeir umhverfismat þar. Hvað segja vinstrigrænir um þá ákvörðun umhverfisráðherra að leyfa vegaframkvæmdir í gegnum Teigsskóg í Þorskafirði þar sem fallegur og merkilegur skógur er nú og arnarvarp verður eyðilagt? Af hverju spyr engin fjölmiðill Jón Bjarnason hvort eigi þar að njóta vafans, umhverfið og arnarstofninn, eða atkvæðavonin á Patreksfirði? Prinsip-flokkurinn ætti varla í vandræðum með að svara slíku.
ÍÍendurminningum sínum, Stelpunni frá Stokkseyri, sem út kom fyrir síðustu jól, sagði Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, frá vistinni í þeim flokki með hinum málefnalegu mönnum, Steingrími J. Sigfússyni og fleirum. Um einlægni þeirra í umhverfismálum sagði hún meðal annars:
Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins. |
Þetta munu vinstrigrænir raunar hrekja allt, nú þegar þeir munu kynna kosningastefnuskrá sína í norðausturkjördæmi þar sem megináherslan verður lögð á að hætt verði við Héðinsfjarðargöng, en munnarnir keyptir og hafðir sem sýningargripir „um heimsku mannanna“. Því flokkurinn er raunverulegur umhverfisverndarflokkur, en ekki bara sósíalískur flokkur í leit að stuðningsmönnum.