Fimmtudagur 18. janúar 2007

18. tbl. 11. árg.
Stuttu eftir að ég tók við formennskunni ákvað ég að fá óháðan aðila til þess að fara yfir reikningana og bókhald vegna þess að ég vildi byrja með hreint borð og vita nákvæmlega við hverju ég tæki. Skömmu áður hafði verið upplýst að skuldir flokksins væru rúmar þrjátíu milljónir, en það lá alltaf í loftinu að þeir reikningar, sem sýndir hefðu verið á landsfundinum, væru yfirborðskenndir í meira lagi. Þegar ég hafði leitað til löggilts endurskoðanda til þess að láta hann fara yfir reikningana þá brá svo við að stór hluti bókhalds flokksins fannst ekki, þrátt fyrir umfangsmikla leit.
– Margrét Frímannsdóttir, Stelpan frá Stokkseyri, bls. 200.

Ú lfar Þormóðsson og Jón Torfason, innanbúðarmenn í Alþýðubandalaginu til margra ára, rituðu hvor um sig tvær greinar í Morgunblaðið árið 1998 þar sem þeir beindu nokkrum spurningum til Margrétar Frímannsdóttur formanns Alþýðubandalagsins um fjármál flokksins. Margrét hafði sent flokksmönnum bréf og hvatt þá til að styrkja flokkinn með fjárframlögum. Í bréfi Margrétar kom einnig fram að fjárhagsstaða flokksins væri mun verri en áður hefði verið talið. Margrét sagði að á landsfundi Alþýðubandalagsins árið 1995, þegar hún tók við formennsku af Ólafi Ragnari Grímssyni, hefði því verið haldið fram að skuldir flokksins væru 33-35 milljónir króna en við endurskoðun bókhaldsins hefði komið í ljós að þær hefðu í raun verið 52 milljónir.

Þetta endurtekur og staðfestir Margrét í bókinni Stelpan frá Stokkseyri sem kom út nú fyrir áramótin. Þar segir hún skuldirnar hafa reynst „rúmar 50 milljónir“ en ekki „rúmar 30 milljónir“ eins og haldið hafði verið fram þegar hún tók við formennsku.

Úlfari og Jóni þótti sem von er forvitnilegt á sínum tíma að fá að vita hvernig hátt í tuttugu milljóna króna skuldir hefðu verið týndar, hvort bókhaldið sem lagt var fyrir landsfundinn 1995 hafi þá verið falsað og þar fram eftir götunum. Úlfar spurði í greinaskrifum sínum til Margrétar hvort rétt væri að forveri hennar á formannsstóli, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði ásamt framkvæmdastjóra flokksins haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota í gegnum krítarkort eða á einhvern annan hátt, „hvort þeir félagar hefðu fundið upp á þessu bragði til búdrýginda hjá sér með vitund framkvæmdastjórnar flokksins“ og hvort þessi hlunnindi hefðu verið gefin upp til skatts.

Margrét svaraði aldrei bréfum þeirra Úlfars og Jóns í Morgunblaðinu.

Nú hefur Margrét hins vegar endurtekið efni fjáröflunarbréfsins sem hún sendi flokksmönnum Alþýðubandalagsins og bætt því við að stór hluti bókhalds flokksins hafi verið týndur. Margrét Frímannsdóttir segir ítrekað að í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar hafi verið hrikaleg óregla á fjármálum flokksins, bókhaldsgögn týnd og skuldir vantaldar um tugi milljóna króna. Og til að halda því til haga þá eru þessar alvarlegu ásakanir ekki liður í áflogum gömlu fylkinganna úr Alþýðubandalaginu því Margrét og Ólafur voru í sömu fylkingunni.

En spurningum Úlfars og Jóns er enn ósvarað. Í hverju fólst óreglan nákvæmlega og hverjir báru ábyrgð á henni? Gat Margrét ekki veitt svör við þessum spurningum því stór hluti bókhaldsins var horfinn?