Miðvikudagur 10. janúar 2007

10. tbl. 11. árg.

G ylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ hætti í haust í prófkjöri hjá Samfylkingunni í Reykjavík þar sem hann sóttist eftir 3. til 4. sæti. Það virðist hafa runnið upp fyrir honum að hann gæti gert flokknum meira gagn úr sæti framkvæmdastjórans. Undanfarna daga hefur Gylfi verið í helstu fjölmiðlum sem forsöngvari hjá þeim Samfylkingarmönnum sem vilja um þessar mundir „taka upp“ evru. En eins og sannaðist fyrir síðustu þingkosningar er alls ekki víst að Samfylkingin haldi þetta Evrópusambandstal út fram að kosningum. Það fer allt eftir svörunum frá Gallup. Það er heldur ekki víst að allir félagar Alþýðusambandsins séu sammála þessum áróðri framkvæmdastjórans en við því eiga þeir fá svör því það er ekki hlaupið að því að segja sig úr samtökum á borð við ASÍ.

Í hádegisfréttum Stöðvar 2 fyrir viku las Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, dóttir frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, til dæmis frétt Heimis Más Péturssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, um að íslenskra krónan kosti álíka mikið og rekstur heilbrigðis- og menntakerfis landsins! Að fréttum loknum tók svo fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hádegisviðtal við Gylfa Arnbjörnsson fyrrverandi frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar um málið.

Önnur samtök sem byggja allt sitt á nauðungaraðild eru Samtök iðnaðarins. Svo einkennilega vill til að þau samtök hafa einnig lagt þeim málstað lið að Ísland gangi í Evrópusambandið þótt skoðanakannanir meðal félagsmanna hafi bent til gagnstæðs vilja.

Nú er auðvitað öllum velkomið að nota evru eða hvaða aðra mynt sem er hér á landi. Meirihluti sparnaðarleiða, bankareikningar og verðbréfasjóðir, sem bankar bjóða eru í erlendri mynt og þeir sem vilja taka fé að láni, hvort sem er fyrir bíl eða húsi, geta jafnvel fengið körfu fulla af erlendri mynt. Hlutafélög geta gert upp í erlendri mynt og nokkur skráð hlutafélög gera nú þegar upp í evru, Bandaríkjadal og Sterlingspundi. Hér virðist því vera ágætis keppni milli mynta. Kannski leiðir hún á endanum til þess að íslenska krónan lætur undan síga sem helsta mælieining viðskipta hér á landi. Þá bara gerist það. Það þarf ekki allt að gerast með skipunum að ofan.