Þ að er nokkuð um liðið síðan Lysander Spooner ritaði Vices Are Not Crimes eða Löstur er ekki glæpur. Þar færði hann hann rök fyrir því að það sé ekki verjandi að setja lög gegn löstum. Menn hafa lengi reynt að setja lög gegn drykkju, dópi, fjárhættuspilum, vændi, nektardansi og hverju öðru sem einhverjum hefur einhver tímann þótt óbærilegt að aðrir séu að orna sér við óáreittir. Nú síðast lagði Lýðheilsustöð að áeggjan Evrópusambandsins til atlögu við morgunverðarskálina. Það eiga víst enn nokkrir eftir að lesa Vices Are Not Crimes.
Spooner reyndi að benda á að allar óþvingaðar athafnir mannsins hafa afleiðingar, hvort sem er til góðs eða ills. Það er sama hvað við gerum, það hefur áhrif. Mennirnir eru hins vegar ólíkir og það sem hefur slæm áhrif fyrir einn getur haft góð áhrif á annan. Staður og stund getur einnig skipt máli. Eina stundina getur ákveðin athöfn leitt af sér hreinar hörmungar en aðra stundina eintóma gleði og ánægju. Það er því fjarstæðukennt að ætla öðrum en einstaklingunum sjálfum að meta hvað er þeim fyrir bestu.
Á Stöð 2 í gær hélt Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri áfram baráttu sinni gegn „ógæfukössunum“ sem hann kallar spilakassa. Kveikjan að baráttu borgarstjórans er ætlun Háskóla Íslands að leggja til slíka kassa í Mjódd í Breiðholti. Borgarstjóri er raunar ekki eini Breiðhyltingurinn sem leggst gegn kössunum í Mjódd því margir aðrir hafa skrifað undir mótmæli gegn þeim. Reykjavíkurborg veitti leyfi fyrir rekstrinum síðastliðið sumar en nú hefur borgarstjóri fengið bakþanka. Þessi stjórnsýsla fer að minna á afstöðu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar til stækkunar álvers í Straumsvík. Þegar allt er að verða klárt er efnt til einhvers konar flugvallarkosningar um deiliskipulag.
Borgarstjóri hefur einnig sagt að þessir ógæfukassar geti farið út í Örfirisey. Þessi stefna er ekki ný af nálinni. Áður hafa menn með vandlætingu sagt að nektarstaðir geti farið inn í Súðarvog eða upp á Höfða. Þá var víst verið að hugsa um heill og hamingju stúlknanna sem starfa á þessum stöðum. Þær voru ekki alveg öruggar með sig þarna niður í bæ að mati þeirra sem vildu banna staðina. En í Hyrjarhöfða eða Smiðjuvegi eru auðvitað allir öruggir.
Í gær lét svo annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í sér heyra um hvað hann telur æskilega starfsemi í borginni. Í Fréttablaðinu var rætt við Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa um nektarstaðina en þeim var úthýst úr borginni á síðasta kjörtímabili með afar undarlegum aðferðum. Gísli Marteinn segir borgina engar ætlanir hafa um að breyta því furðuverki sem lögreglusamþykkt gegn einkadansi frá árinu 2002 er. Þvert á móti.