Þriðjudagur 2. janúar 2007

2. tbl. 11. árg.

Nú um áramótin verða umtalsverðar breytingar á tekjuskatti þeim er almennir launamenn greiða. Ríkið lækkar sinn hlut í staðgreiðslunni um 1% og hækkar að auki verulega persónuafslátt þannig að skattleysismörk hækka úr 78 þúsund í um 90 þúsund krónur. Sveitarfélögin halda hins vegar útsvarinu, sínum hlut í staðgreiðslunni, lítt breyttu enda flest þau stærstu áður búin að hækka útsvarið að leyfilegum mörkum á undanförnum árum. Á launaseðlunum hér að neðan má sjá dæmi um skattheimtu af 250 þúsund króna mánaðarlaunum fyrir og eftir þessar breytingar.

Desember 2006 Janúar 2007
Heildarlaun: 250.000 Heildarlaun: 250.000
Lífeyrissjóðsgreiðslur: Lífeyrissjóðsgreiðslur:
Skyldugreiðsla í lífeyrissjóð 4%: 10.000 Skyldugreiðsla í lífeyrissjóð 4%: 10.000
Viðbótargreiðsla í lífeyrissjóð 4%: 10.000 Viðbótargreiðsla í lífeyrissjóð 4%: 10.000
Staðgreiðsla skatta: Staðgreiðsla skatta:
Greiðslur utan staðgreiðslu: 20.000 Greiðslur utan staðgreiðslu: 20.000
Staðgreiðsluskyld laun: 230.000 Staðgreiðsluskyld laun: 230.000
Tekjuskattshlutfall ríkisins, 23,75%: 54.625 Tekjuskattshlutfall ríkisins, 22,75%: 52.325
Persónuafsláttur: 29.029 Persónuafsláttur: 32.150
Tekjuskattur til ríkisins: 25.596 Tekjuskattur til ríkisins: 20.175
Útsvar til sveitarfélags, 12,97%: 29.831 Útsvar til sveitarfélags, 12,97%: 29.831
Samtals staðgreiðsla: 55.427 Samtals staðgreiðsla: 50.006
Útborguð laun: 174.573 Útborguð laun: 179.994

Eins og sjá má lækkar tekjuskattur til ríkisins um rúm 20% af þessum launum, fer úr 25.596 í 20.175 krónur. Útborguð laun á mánuði hækka því um rúmlega 5.000 krónur. Þótt ríkið hafi hætt við að lækka tekjuskattinn um 2% og aðeins lækkað hann um 1% að þessu sinni er þessi skattalækkun afar mikilvæg af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eykur hún ráðstöfunarrétt einstaklinganna yfir sjálfsaflafé sínu. Hins vegar dregur hún út tekjum ríkissjóðs. Það er mjög brýnt að draga hratt úr tekjum ríkissjóðs því miklar tekjur ríkisins eru helsta efnahagsvandamálið um þessar mundir. Stjórnmálamenn eiga mjög erfitt með að eyða ekki því fé ríkissjóður aflar. Það sást til að mynda við afgreiðslu fjárlaga nú í haust. Fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp með góðum afgangi en í meðförum þingsins var þessi afgangur minnkaður verulega.

Þetta dæmi sýnir einnig á hve sveitarfélögin taka stóran hluta af staðgreiðslunni. Maður með þessar 250 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir nú helmingi hærri tekjuskatt til sveitarfélags en ríkisins. Andríki hefur áður hvatt til þess að fyrirtæki og stofnanir sundurliði staðgreiðsluna svo launamenn átti sig á hvert tekjuskattur þeirra rennur. Þetta er lítið mál eins og ofangreint dæmi ber með sér. Nokkur einkafyrirtæki gera þetta en það má furðu sætir að ríkissjóður skuli ekki sýna launþegum sínum að stór hluti tekjuskattsins rennur til sveitarfélaganna en ekki í ríkissjóð eins og margir halda vafalaust.