Á R A M Ó T A Ú T G Á F A
E ins og áður um þetta leyti dregur Vefþjóðviljinn hér hreinskilnislega fram þau atvik sem síst mega verða árinu samferða inn í aldanna skaut.
Matsfyrirtæki ársins: Poor Standards.
Vísindaafrek ársins: Stórstígar framfarir urðu í nanótækni á árinu, sem náðu hámarki þegar íslenskum vísindamönnum tókst að kljúfa Frjálslynda flokkinn.
Vera ársins: Morgunblaðið.
Þjóðvilji ársins: Lesbók Morgunblaðsins.
Lýðræðissinnar ársins: Stjórnmálaflokkarnir ákváðu að úthluta sjálfum sér hundruðum milljóna af opinberu fé og bönnuðu því næst öðrum að safna peningum. Í nafni lýðræðisins.
Upphaf ársins: Í desember var frá því skýrt að búið væri að „skjóta fyrsta Svíanum út í geiminn“. Einn kominn, níu milljónir eftir, þetta hefst.
Fjöldaþátttaka ársins: Í sameiginlegu prófkjöri vinstrigrænna fyrir þrjú fjölmennustu kjördæmi landsins mættu eittþúsundþrjátíuogfjórir til að velja á milli þrjátíu frambjóðenda. Skömmu áður höfðu fimmtánhundruð manns mætt í Valhöll á aðalfund Heimdallar.
Endurnýjun ársins: Sitjandi þingmenn fengu öll vænlegu sætin í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna alþingiskosninga í Reykjavík.
Sigurgleði ársins: Morgunblaðið skrifaði hástemmdan leiðara þegar Joe Lieberman tapaði forkosningum demókrata vegna komandi kosninga til öldungadeildarinnar. Andstæðingur hans hefði nefnilega barist gegn Íraksstríðinu og birt myndir af þeim Bush og Lieberman saman.
Leynisigur ársins: Morgunblaðið dró engar ályktanir þegar Joe Lieberman bauð sig fram utan flokka til öldungadeildarinnar og gersigraði frambjóðanda demókrata. Þennan sem barðist gegn Íraksstríðinu og birti myndir af þeim Bush og Lieberman saman.
Húsvörður ársins: Valgerður Sverrisdóttir tók að sér að vakta yfirgefnar blokkir varnarliðsins við Keflavíkurflugvöll.
Grasrótarfulltrúi ársins: Eftir að álitsgjafar höfðu árum saman tilkynnt að Kristinn H. Gunnarsson talaði röddu hins almenna framsóknarmanns, ólíkt hinni einangruðu forystu, beið Kristinn afgerandi ósigur í prófkjöri flokksins, en Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vann örugglega.
Kvíðari ársins: „Víkverja er byrjað að kvíða fyrir alþingiskosningunum í vor um leið og honum hlakkar til að fá að nýta atkvæðisrétt sinn í lýðræðisríki.“ Áskrifendur Morgunblaðsins fá mikið fyrir peningana sína.
Leyniþjónusta ársins: Stöð 2 flutti frétt eftir frétt um „Leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins“. Hugtakið reyndist heimatilbúið og heimildamaðurinn, Guðni Th. Jóhannesson, þurfti að skrifa blaðagrein til að biðjast undan því að vera kenndur við vitleysuna.
Samstarfsmaður ársins: Í ljós kom að Jón Baldvin Hannibalsson hafði gert mann út af örkinni til að leita uppi hugsanleg tengsl þáverandi samráðherra síns, Svavars Gestssonar, við leyniþjónustu Austur-Þýskalands.
Varkárni ársins: Gísli Tryggvason talsmaður neytenda tilkynnti hvar sem hann kom, að til þess að embættisstörf Gísla Tryggvasonar talsmanns neytenda yrðu ekki til þess að draga ómaklega athygli að framboði Gísla Tryggvasonar á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi, þá myndi Gísli Tryggvason talsmaður neytenda ekki koma fram sem slíkur opinberlega á tímabilinu 28. október til 4. nóvember.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Prinsipmenn ársins: Fjölmiðlamenn sáu ekkert að því að birtir yrðu opinberlega illa fengnir tölvupóstar fólks, með texta um viðkvæm einkamálefni. Margir hinna sömu fjölmiðlamanna töldu síðar á árinu stóralvarlegt að lögregla hefði á árum áður, í samræmi við lög og að fengnum dómsúrskurði, hlerað síma þeirra sem grunaðir voru um að ógna þjóðskipulagi ríkisins.
Auglýsingastofa ársins: Ríkissjónvarpið breytti sér í kynningarfyrirtæki þegar einn starfsmaður þess stóð fyrir kröfugöngu niður Laugaveginn.
Niðurstaða ársins: Ómari Ragnarssyni tókst loks að gera upp hug sinn í Kárahnjúkamálinu, sem hann hefur sagt fréttir af árum saman. Þegar niðurstaða Ómars lá fyrir, í lok september 2006, hætti hann að sjálfsögðu að segja fréttir af málinu.
Predikari ársins: Hildur Eir Bolladóttir greindi frá því í guðsþjónustu í Laugarneskirkju að Kárahnjúkjar væru „heilög sköpun Guðs“. Fréttamenn ruku auðvitað upp til handa og fóta, en spurðu Hildi Eir því miður ekki að því hvort til væri sá blettur á jörðu sem ekki væri sköpunarverk Guðs. Hvort jafnvel mætti vera að heimili hennar sjálfrar stæði á einum slíkum.
Öxlun ársins: Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra axlaði loks ábyrgð á fylgistapi Framsóknarflokksins og sagði af sér.
Ritdómari ársins: Morgunblaðið fékk Andra Snæ Magnason til að ritdæma nýja bók Steingríms J. Sigfússonar. Þannig sýndi blaðið þessum umhverfisperrum í tvo heimana.
Endurskoðandi ársins: Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Strætós, gaf rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Hún vildi nefnilega „ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins.“
Huldumaður ársins: Ekki er vitað hver hann er, en hann skoraði á Jónínu Bjartmarz að bjóða sig aftur fram til varaformanns Framsóknarflokksins.
Stílbrot ársins: Eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði metið ótal hluti rangt í íslenskum þjóðmálum, rann upp fyrir henni ljós og hún sagði frá því að Íslendingar treystu ekki þingflokki Samfylkingarinnar. Virtist hún skilja það mætavel.
Virktir ársins: Ingibjörg Sólrún bætti því hins vegar við, að á þessu væri nú væntanleg mikil breyting. Sem hlýtur þá að vera brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur, Guðrúnar Ögmundsdóttur, Rannveigar Guðmundsdóttur og Jóhanns Ársælssonar af þingi, því ekki benda prófkjör Samfylkingarinnar til að aðrar breytingar verði á þingflokknum. Það er gaman að vera kvaddur með virktum.
Rannsóknarréttur ársins: Framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins.
Samningamenn ársins: Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi í Vogum, benti á það í blaðagrein að „uppgangur síðustu ára [hefði] fyrst og fremst verið vegna opnunar markaða í kjölfar EES-samnings Samfylkingarinnar“. Í tveimur af þremur flokkum Samfylkingarinnar var að vísu ekki nokkur einasti þingmaður sem studdi EES-samninginn þegar hann var afgreiddur.
Kynningarlag ársins: Flugleiðir hvöttu fólk óspart til ferðalaga með skemmtilegri sjónvarpsauglýsingu. Í bakgrunni hennar söng Pálmi Gunnarsson hið sígilda lag, Hvers vegna varstu ekki kyrr?
Stuðningur ársins: Samkvæmt skoðanakönnun treysta 8,7 % landsmanna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur best allra stjórnmálamanna. Það er meira en þriðji hver Samfylkingarmaður.
Dulargerfi ársins: Eins og margir frægir menn, gerir Göran Persson allt sem hann getur til að halda einkalífi sínu utan við sviðsljósið. Þannig fer hann aldrei á íþróttaleiki nema dulbúinn sem Júlíus Hafstein. Árvökulir blaðamenn Fréttablaðsins létu þó ekki blekkjast.
Valdahlutföll ársins: Stjórnarþingmönnum fjölgaði um einn þegar Jónína Bjartmarz varð ráðherra.
Bragðarefur ársins: Halldór Ásgrímsson hafði alla þræði í hendi sér og fór létt með að gera Finn Ingólfsson að flokksformanni og ráðherra. Það eina sem hann þurfti að passa var að láta Guðna Ágústsson ekki leika á sig.
Þyrlupallur ársins: Stöð 2 lét þyrlu lenda ofan á þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, til að spara sér tíma þegar haldinn var blaðamannafundur í þjóðgarðinum.
Árstími ársins: Eins og venjulega verður tíminn mánuður-til-kosninga, stundin þegar Ólafur Ragnar Grímsson fréttir af geysilegri fátækt sem þjóðfélagið er gegnsýrt af.
Hlutafélag ársins: Ríkisútvarpið hf.
Sameignarfélag ársins: Ríkisútvarpið sf.
Ríkishlutafélag ársins: Ríkisútvarpið ohf.
Raunveruleiki ársins: Ríkisútvarpið.
Góðmenni ársins: Hæstiréttur dæmdi að Fréttablaðinu hefði verið heimilt að nota gögn úr tölvupósti annars fólks, sem blaðinu hafði borist með vafasömum hætti. Svo furðulega vildi til, að meirihluti dómara málsins var skipaður í embætti af ritstjóra Fréttablaðsins. Svona getur Ísland verið fámennt og góðmennt.
Staðhæfing ársins: Dominos sendi sextíuþúsund jólakveðjur til viðskiptavina sinna á aðfangadagskvöld. Framkvæmdastjórinn tók fram að það hefði ekki verið gert í auglýsingaskyni.
Hneykslun ársins: Allir landsmenn nema Kristján Hreinsson kusu Silvíu Nótt til að taka þátt í Eurovision. En urðu síðan illa sviknir þegar hún lét bara eins og fífl í keppninni.
Ósigur ársins: Rock-star keppnin fór illa: Á móti sól starfar áfram.
Samningur ársins: Umhverfisráðuneytið og veðurstofan gerðu með sér „árangursstjórnarsamning“. Þó fyrr hefði verið.
Frumhlaup ársins: Páfi gerði sig að athlægi með því að vitna í margra alda dauðan mann sem hafði sagt eitthvað á þá leið að fylgjendur tiltekinna trúarbragða ættu það til að vera ofbeldisfullir. Því var svarað með brenndum kirkjum og myrtum nunnum. Vestrænir fjölmiðlar hafa síðan skeggrætt hvort afsökunarbeiðni páfa hafi verið nægilega sterk.
Auglýsing ársins: Fyrir borgarstjórnarkosningar gerði Samfylkingin sjónvarpsauglýsingu sem sýndi leiðinlega sjálfstæðismenn gagnrýna Samfylkinguna fyrir að hafa reist fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal. Sem hefði verið ómakleg gagnrýni því garðurinn var bæði reistur og opnaður í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, opnaður af Markúsi Erni Antonssyni.
Staðalfélag ársins: Talsmaður Femínistafélags Íslands sagði að félag sitt hefði frá upphafi ákveðið að það hefði ekki aðeins merki, heldur lit. Bleikan lit nánar tiltekið, því bleikur væri litur stelpna en blár litur stráka. Megintilgangur félagsins er að berjast gegn „staðalímyndum“.
Ráðning ársins: Ragnar Aðalsteinsson var ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Nafnbreyting ársins: Gísli S. Einarsson varaþingmaður Samfylkingarinnar gerðist bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Jafnframt tók hann upp nafnið Gísli D. Einarsson.
Grís ársins: Það er nú augljóst.
Klofningur ársins: Samfylkingin hristi af sér hlekkina og gekk úr Valdimari Leó Friðrikssyni. Hún mun stefna á sérframboð gegn honum næsta vor.
Álitsgjafi ársins: Þegar umboðsmaður alþingis gagnrýndi félagsmálaráðherra fyrir að hafa ekki valið Helgu Jónsdóttur sem ráðuneytisstjóra, leituðu Ríkisútvarpið, Stöð 2 og Ríkissjónvarpið öll til sama óháða hæstaréttarlögmannsins til að fá sérfræðiálit á málinu. Enginn fjölmiðillinn gat þess að hinn óháði lögmaður rekur lögmannsstofu með tveimur bræðrum Helgu og hafði á fyrra ári skrifað harðorða grein til að mótmæla því að Helga hafði ekki verið ráðin í starfið.
Ánægja ársins: Valdimar Gunnarsson íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri var í kvöldfréttum Stöðvar 2 spurður álits á væntanlegri brottför varnarliðsins. Íslenskukennarinn sagðist vera afskaplega ánægður og bætti við: „Nú hlakkar mig til prófa.“
Talning ársins: Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stóð fyrir mikilli auglýsingaherferð. Hún hófst auðvitað á orðunum: „Aldamótin 2000 mörkuðu ekki heimsendi eins og sumir héldu heldur nýtt upphaf. Á þeim sjö árum sem liðin eru…“.
Leiðbeiningar ársins: Kastljós Ríkissjónvarpsins bauð upp á vandaða fræðslu um skyndihjálp sem beita skal „ef maður kemur að einhverjum sem hefur drukknað“. Kom fram hjá umsjónarmanni að sá sem kæmi „að manneskju sem hefur drukknað“ yrði að „bregðast hratt og rétt við“. Ekkert var hins vegar sagt um hvort nokkuð lægi á skjótum viðbrögðum þegar komið væri að manni sem einungis væri nálægt því að drukkna en ætti sér enn lífs von.
Arftaki ársins: Árni Magnússon sagði að stjórnmál væru „heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti“. Það væri hann hins vegar ekki lengur og viki því fyrir framtíðarmanni sem væri „fullur eldmóði“ og myndi gefa sig allan í baráttuna. Við starfi hans tók villingurinn úr heilbrigðisráðuneytinu, Jón Kristjánsson.
Veiking ársins: Forystumenn stjórnarandstöðunnar sögðu að brotthvarf Árna Magnússonar úr ríkisstjórn myndi veikja stjórnina, þar sem Árni hefði „staðið sig vel“. Skömmu áður höfðu sömu menn krafist afsagnar hans vegna mála framkvæmdastjóra jafnréttisstofu.
Fræðimaður ársins: Stefán Ólafsson prófessor virðist geta orðið næsti svanur.
Spámaður ársins: Halldór Ásgrímsson brá sér til Lundúna að sjá fótboltaleik milli Chelsea og Barcelona. Á forsíðu Fréttablaðsins var því slegið upp að Halldór spáði því að leikurinn færi 3-1 fyrir Chelsea. Þessi spádómur Halldórs rættist jafn vel og aðrir. Barcelona vann frækinn sigur og Halldóri til heiðurs voru skoruð tvö sjálfsmörk í leiknum.
Kvenstaða ársins: Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri missti af oddvitasæti Samfylkingarinnar en ungur karlmaður náði því. Ríkissjónvarpið sagði frá úrslitunum en minntist ekki orði á það að þar hefðu „konur“ misst spón úr aski sínum. Í sama fréttatíma var hins vegar þrívegis tekið fram, að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall af efstu mönnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði sem fram hafði farið daginn áður.
NFS ársins: Stöð 2.
Sönnun ársins: „Guðmundur er hins vegar sjálfstæður penni, og hefur ekki hikað við að segja álit sitt þó það komi yfirmönnum hans varla vel, sbr. gagnrýninn leiðara nýlega um vonda málsvörn Gunnars Smára um ritstjórnarstefnu DV í kjölfar ísfirsku skandalfréttarinnar. Sú staðreynd, að Guðmundur gat birt slíkan leiðara gerði það hins vegar að verkum að ég trúði því loks að Fréttablaðið væri laust við áreiti af hálfu eigenda og æðstu yfirmanna 365-miðla“ skrifaði Össur Skarphéðinsson glaðbeittur. Á sömu stund var verið að reka umræddan Guðmund úr starfi sínu.
Súlnareki ársins: Stefán Jón Hafstein fagnaði mjög þeirri hugmynd Yoko Ono um að í borgarlandinu yrði sett upp tíu metra há upplýst súla. Stefán Jón hafði reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að í borgina vantaði risastóran sívalning, baðaðan ljósgeislum, fullan af lofti.
Stefnubreyting ársins: Stefnu Samfylkingarinnar í virkjanamálum var breytt með tónleikum í Laugardalshöllinni.
Leynigestur ársins: Fréttablaðið sagði frá því að þakið hefði nær farið af höllinni við fagnaðarlætin þegar tónlistarmaðurinn Nick Cave kom fram á tónleikunum. Sem hann að vísu gerði ekki.
Sáttamenn ársins: Eftir að löggjafinn hafði gengið að öllum kröfum Samtakanna 78 nema einni, hvatti formaður samtakanna til þess að „leitað [yrði] sátta“ í þessu síðasta máli og fallist á gerðar kröfur þar líka. Ekki kom fram hvað Samtaka-menn hygðust slá af, til sátta.
Liðleskjur ársins: Í fyrsta skipti í mörg ár tókst Haraldi Erni Ólafssyni ekki að þramma neitt sem gæti tryggt honum nafnbirtingu í áramótaannál Vefþjóðviljans. Það eru vonbrigði fyrir hann, og þá ekki síður fyrir Ingþór sem þar með kemst ekki á blað heldur.
Leynivopn ársins: Landsbanki Íslands ákvað að beita nýrri aðferð, áður óþekktri hjá íslensku viðskiptabönkunum, og gekk undir sama nafni allt árið.
Oddviti ársins: Dagur B. Eggertsson, sem á síðasta ári lýsti því yfir að ef R-listinn myndi ekki bjóða fram til borgarstjórnar þá myndi hann sjálfur ekki gera það heldur, og sem lýsti því jafnframt yfir að hann myndi ekki ganga í Samfylkinguna, leiðir nú Samfylkinguna í nýrri borgarstjórn.
Klukka ársins: Einar Bárðarson forstjóri Nælons.
Hungur ársins: Ólafur F. Magnússon var einum hafragraut frá því að mynda vinstrimeirihluta í Reykjavík.
Krafa ársins: Maður einn, sem á í dómsmáli, skrifaði Ríkissjónvarpinu bréf eftir að Kastljósið hafði fjallað um málið, og sagðist eiga „rétt á því að um slík mál sé aðeins fjallað fyrir réttum dómstólum og þá samkvæmt þeim lögum og reglum sem um það gilda.“ Sami maður hefur undanfarin ár verið helsti eigandi hins virta fréttarits, DV, sem einmitt fylgir þeirri stefnu að um dómsmál sé einungis fjallað í dómsölum en ekki í fjölmiðlum.
Rof ársins: Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur rauf þögn sína og skrifaði blaðagrein gegn ríkisstjórninni. Albert Jensen er að manna sig upp í að svara honum. Það verður átak fyrir þá báða ef úr verður ritdeila.
Skoðanakúgun ársins: Landsvirkjun styrkti Ómar Ragnarsson um 4 milljónir króna vegna baráttu hans á hálendinu.
Kjósendur ársins: Tveir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Vestmannaeyjum mættu og kusu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi.
Upprifjun ársins: Um leið og Árni Páll Árnason gaf kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar rifjaðist upp fyrir honum að jú, hann hafði einmitt verið hleraður fyrir rúmum áratug þegar hann vann í utanríkisráðuneytinu. Ha nei, hann hafði að vísu ekki sagt neinum frá því, hvorki yfirmönnum sínum né öðrum samstarfsmönnum, en svona var þetta nú.
Glöggskyggni ársins: Íslenskir kynningarmenn hafa verið ötulir við að koma á framfæri jákvæðum frásögnum erlendra fjölmiðla af íslenskum athafnamönnum og fyrirtækjum þeirra. Glöggt er líka gests augað.
Ómerkingar ársins: Ekkert er að marka frásagnir danskra fjölmiðla af íslenskum athafnamönnum og fyrirtækjum þeirra. Þau skrif helgast af öfund út í Ísland og Íslendinga – sem er landlæg í Danmörku og hefur alltaf verið.
Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.