H lustendur Morgunútvarps Rásar eitt í Ríkisútvarpinu urðu fyrir miklu áfalli í gærmorgun þegar tilkynnt var að lestur úr leiðurum erlendra dagblaða félli niður þann morguninn. Það var mikið á þá lagt að þurfa sjálfir að fletta upp leiðurum Guardian í Bretlandi og New York Times í Bandaríkjunum, en eins og hlustendur þessa þáttar vita geta þeir treyst því að þegar Jón Ásgeir Sigurðsson les upp úr leiðurum erlendra dagblaða þá er alltaf lesið upp úr að minnsta kosti öðru þessara blaða, og stundum báðum.
Ef ekki er lesið upp úr báðum þessum málgögnum vinstri manna er það einungis vegna þess að einhver önnur blöð hafa tekið Bandaríkjaforseta betur á beinið en annað þessara blaða. Eða þá að önnur málgögn vinstri manna þurfa að komast að með gagnrýni á hina köldu markaðshyggju, eins og til dæmis Politiken í Danmörku. Svo er inn á milli þessara klassísku og vel þekktu gagnrýnenda hægri manna og markaðsskipulagsins lesið upp úr einhverjum erlendum furðublöðum, og þá að því er virðist einna helst til að finna ferskar gagnrýnisraddir frá vinstri.
Það er með nokkrum ólíkindum að Ríkisútvarpið skuli halda úti sérstökum starfsmanni sem hefur það hlutverk að lesa upp úr vinstri pressu heimsins á hverjum einasta morgni. Það væri vissulega ekkert við þetta að athuga ef Jón Ásgeir Sigurðsson læsi upp úr þessum blöðum skoðanabræðra sinna á eigin kostnað í eigin útvarpi. Það að hann fái að gera það á kostnað annarra í útvarpi sem á að heita útvarp allra landsmanna – líka þeirra sem ekki eru í grundvallaratriðum á móti markaðsskipulaginu eða fjandskapast út í hægri menn – er alveg óviðunandi.
Ef Ríkisútvarpið hefur einhvern áhuga á að vera annað en málpípa vinstri manna verður það meðal annars að endurskoða þennan dagskrárlið rækilega. Annaðhvort þarf að fá fleiri starfsmenn – og þá með fjölbreyttari skoðanir – til að sinna þessari dagskrárgerð, eða þá einhver innan stofnunarinnar þarf að benda umræddum starfsmanni á að linnulaus lestur upp úr leiðurum Guardian og New York Times er ekki til þess fallinn að gefa eðlilega mynd af umræðunni utan landsteinanna.