A ðeins brot af þeim gríðarlegu sköttum sem teknir eru af bíleigendum skila sér til vegagerðar. Vefþjóðviljanum kemur heldur ekki á óvart að ríkið mætir eftirspurn eftir vegabótum bæði seint og illa. Og hér er átt við eftirspurn þar sem hún er mest, ekki þar sem þingmenn meta hana mikilvægasta rétt fyrir kosningar. Og það er alltaf stutt í kosningar.
Menn hljóta að leiða hugann að aðferðum til að tengja betur saman notkun vega og vegabætur. Leiðirnar til og frá höfuðborginni eru dæmi um vegi sem væru án efa betri ef tekið væri gjald af notendum þeirra í stað þess að leggja skatta á bíla og eldsneyti.
Um þessar mundir er þrýst mjög á þingmenn að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður. Morgunblaðið hefur farið hamförum eftir dauðaslys á veginum. Það er ekki boðlegt af Morgunblaðinu og raunar fleirum sem fylgt hafa í kjölfarið að ræða málið undir þessum formerkjum. Þessir aðilar hafa reynt að stilla málinu þannig upp að þeir sem fallast ekki á tvöföldun vegarins án tafar séu hlynntir dauðaslysum. Það er alveg jafn glórulaust að láta slíkan málflutning, undirskriftarsafnanir og önnur upphlaup ráða vegaframkvæmdum og að búa áfram við skiptingu vegafjár sem ræðst mjög af stöðu hvers kjördæmis í samgöngunefnd þingsins og samgönguráðuneyti.
Það eru nefnilega fleiri hættulegir vegir en Suðurlandsvegur. Ef tvöföldun vegarins (2+2) í stað 2+1 hefur það til að mynda í för með sér að engar bætur verða gerðar á Vesturlandsvegi þá er ekki verið að fara þá leið sem virðist draga mest úr líkum á slysum. Fyrir þá fjármuni sem í boði eru sýnist skynsamlegast að aðgreina akstursstefnur bæði á Suður- og Vesturlandsvegi með svonefndum 2+1 vegi. Það er að minnsta kosti niðurstaðan ef þeir kostir sem samgönguyfirvöld hafa kynnt eru skoðaðir.
Í öllum æsingnum og yfirboðum fjölmiðla og stjórnmálamanna síðust dagana hefur vegamálastjóri reynt að leggja þá kosti sem í boði eru á borðið, þar með talið hver kostnaðurinn er við hverja leið. Það er virðingarvert að hann hafi ekki látið lýðskrumið taka af sér ráðin.
Morgunblaðið ætti að einbeita sér að því að gerðar verði þær kerfisbreytingar í samgöngumálum sem tryggja betur samhengi á milli vegabóta og greiðslu fyrir þær. Ef það tækist er enginn vafi á að vegirnir til og frá höfuðborginni yrðu í miklu betra samræmi við þá miklu umferð sem um þá fer.