|
Krossmessa er spennandi og skemmtileg aflestrar – og minnir um leið á hættuna af öfgafullum umhverfisverndarsinnum. |
Ú t er komin á íslensku bókin Krossmessa eftir færeyska rithöfundinn Jógvan Isaksen. Bókin er dæmigerð glæpasaga en er óvenjuleg að því leyti að hún gerist í Færeyjum, en þar eiga menn líklega ekki að venjast glæpum á borð við þá sem lýst er í bókinni. Hún er að því leyti ekki ólík íslenskum frænkum sínum, sem sumar hverjar lýsa glæpaveröld hér á landi sem almenningur er að minnsta kosti ekki í daglegum tengslum við.
En skáldsögur eru vitaskuld ekki verri fyrir það að vera ævintýralegar á köflum og svo er um þessa bók. Hún er prýðileg aflestarar, rennur ljúflega niður og er nægilega spennandi til að lesandinn vill helst ekki þurfa að slíta lesturinn í sundur með svefni, vinnu eða einhverju þaðan af verra.
Bókin hefur fleiri kosti, til að mynda þann að minna á hættuna af öfgafullum umhverfisverndarsinnum, en ætla má að ýmsir Færeyingar séu ekki mikið hrifnari en sumir Íslendingar af slíkum mönnum. Hér á landi hafa þeir spillt eigum fólks og jafnvel ógnað því sjálfu, en í bókinni Krossmessu ganga þeir heldur lengra. Öfgafullir umhverfisverndarsinnar svífast einskis í bókinni til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að mannskepnan sé ekki meira virði en plöntur og dýr. Mannslífið er raunar lítils virði í hugum einstakra sögupersóna. Að þessu leyti er bókin ekki alveg ólík State of Fear eftir Michael Crichton. Að öðru leyti eru bækurnar býsna ólíkar, bók Crichtons er til að mynda mun ýtarlegri í umfjöllun sinni um umhverfismál og með fjölda gagnlegra tilvísana, enda Crichton þekktur fyrir að leggjast í miklar rannsóknir áður en hann ritar bækur sínar.
Þá snýst bók Crichtons að verulegu leyti um hæpnar kenningar á sviði loftslagsmála, en Jógvan Isaksen varpar ljósi á það sem stendur Færeyingum nær, sér í lagi ólík sjónarmið um hvalveiðar. Hetjur Crichtons ferðast meira og minna um allan hnöttinn í baráttu sinni, en söguhetja Isaksen lætur sér nægja að skjótast á milli færeysku eyjanna. Isaksen fær lesandann til að velta fyrir sér stöðu mannsins í náttúrunni og stöðu annarra lífvera gagnvart manninum. Er manninum heimilt að nýta sér það sem náttúran býður upp á, eða hefur náttúran rétt á að vera í friði fyrir manninum? Þó að spurningar á borð við þessar skjóti – beint og óbeint – upp kollinum við lestur bókarinnar er fjarri því að hún snúist öll um slíka hluti. Þetta er fyrst og fremst hefðbundin spennusaga, en hún hefur aukalega þann kost að af og til er velt upp áhugaverðum spurningum sem hverjum manni er hollt að hugleiða.