Föstudagur 1. desember 2006

335. tbl. 10. árg.

N ái frumvarp um fjármögnun stjórnmálastarfsemi fram að ganga verða settar miklar hömlur á fjáröflun til stjórnmálastarfs. Frumvarpið mælir bæði fyrir um þær fjárhæðir sem fyrirtæki og einstaklingar mega gefa til stjórnálastarfs og kveður einnig á um upplýsingaskyldu þiggjenda og gefenda. Yfirlýst markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra þótt lög af þessu tagi hafi hvergi gert það þar sem þau hafa verið reynd í öðrum löndum.

Í leiðinni ætla flokkarnir sem sömdu frumvarpið að auka ríkisstuðning við sjálfa sig verulega. Þingmaður nokkur er þekktur fyrir ágæta baráttu sína gegn því að fé sé án hirðis. Stjórnmálaflokkarnir eru án eigenda og það fé sem þangað streymir er eins laust við hirði og frekast er unnt. Mun þessi þingmaður styðja aukin ríkisframlög til flokkanna?

En það eru fleiri hættur á hagsmunárekstrum en þegar frambjóðendur og flokkar þiggja fé til baráttu sinnar. Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður rakið bæta lög af þessu tagi stöðu auðmanna í hópi frambjóðenda. Efnaðir frambjóðendur þurfa ekki að leita til annarra til að fjármagna framboð sín og nú verður efnalitlum frambjóðendum gert erfitt fyrir um fjáröflun. Og efnaðir frambjóðendur geta ekki aðeins fjármagnað eigið stjórnmálastúss heldur geta þeir einnig veitt fjármunum til alls kyns annarrar starfsemi eins og íþróttafélaga og menningarfélaga. Hvaða áhrif hafa slík framlög á kjósendur í þessum félögum? Er ekki rétt að setja líka lög gegn hagsmunaárekstrum af þessu tagi? Verður stjórnmálamönnum og fyrirtækjum sem þeir tengjast ekki bannað að gera sér dælt við kjósendur með fjárframlögum? Er ekki rétt að þessar mikilvægu reglur gegn hagsmunaárekstrum gildi í báðar áttir?

Hinn flokkur stjórnmálamanna sem bætir stöðu sína verulega ef frumvarpið gegn frjálsri stjórnmálastarfsemi nær fram að ganga eru starfandi stjórnmálamenn. Þeir fá sérstaka vernd gegn nýliðum í prófkjörum og flokkar sem eiga fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi munu njóta aukinnar verndar gegn nýjum framboðum. Engar skorður verða hins vegar settar við atkvæðakaupum starfandi stjórnmálamanna fyrir fé skattborgaranna. Nú þegar útgjöld hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, slá ný met ár eftir ár, væri ef til vill ástæða til að menn hefðu svolítinn áhuga á því hvernig óskalistar þingmanna úr hinum ýmsu kjördæmum um vegaspotta, íþróttahallir, reiðhallir, göt á fjöll, fræðasetur, söfn og skógrækt líta út.

Nei, nei það eru engar hömlur settar á hvernig menn eyða því fé sem tekið hefur verið með valdi af skattgreiðendum. Allur áhuginn snýst um að setja hömlur á frjáls framlög til stjórnmálastarfs og hugmyndabaráttu.