Í myndi menn sér, að það sjáist á eftir þekktum glæpamanni leiða nokkur líkleg fórnarlömb inn í hús. Þegar menn komi svo á staðinn þá sé engum hleypt inn, en frá húsráðanda berist ýmist heitingar og svívirðingar eða þá óljósar athugasemdir um að allir nema hann séu raunar farnir út bakdyramegin. Ef einhver vilji sannreyna það, þá sé velkomið að senda einn fulltrúa sem megi gá í þvottahúsinu og borðstofunni en ekki annars staðar. Allsherjarleit komi ekki til greina.
Þegar svo væri komið, myndu margir líklega fallast á, að réttmætt væri að ryðjast inn í húsið áður en maðurinn ynni hinum ætluðu fórnarlömbum mein. Ef þar fyndist svo dauðhrætt fólk sem tækist að bjarga á síðustu stundu, þá dytti fáum í hug að ekki hefði mátt fara inn í húsið. En hvað ef menn fyndu hins vegar engin fórnarlömb? Hvað ef vinir húsráðandans tækju svo að valda spellvirkjum í hverfinu, hvort sem væri af hefnd fyrir áhlaupið eða bara af almennu hatri á þeim sem ruddust inn. Yrði áhlaupið á húsið þá ekki lengur réttmætt? Eða ræðst réttmæti áhlaupsins kannski einfaldlega af því hvað menn höfðu gilda ástæðu til að halda að færi fram innandyra?
Og ef mörgum mánuðum seinna kemur í ljós að í raun var fólki haldið nauðugu í húsinu, en leitarmönnum sást bara yfir það, verður áhlaupið þá aftur réttmætt?
Réttmæti þess að ráðast inn í húsið, þarf ekki endilega að velta á því hvað kemur í ljós við innrásina eða því hvernig einhverjir aðrir bregðast við að henni lokinni. Það getur vel verið sú staða uppi, að réttmætið ráðist af því, sem menn höfðu gilda ástæðu til að ætla að kæmi í ljós. Það getur verið að það sé erindið en ekki árangurinn sem mestu ráði um réttmætið. Ef árangurinn verður hins vegar annar og verri en til stóð, þá kann það hins vegar að leggja ríkari skyldur á innrásarmanninn að bæta ástandið, byggja upp það sem hann kann að skemma, og svo framvegis. Og vitaskuld verður að leggja áherslu á að menn hafi raunverulega trúað erindi sínu, en það hafi ekki verið tómur fyrirsláttur.
Ef menn hins vegar telja, að það sé ekki erindið heldur einfaldlega það sem kemur í ljós, sem ræður réttmætinu, þá geta menn komist að ýmsum niðurstöðum. Ef maður nokkur brýst inn í hús til að stela raftækjum, en finnur í húsinu og frelsar fólk sem þar er haldið nauðugu – verður þá innbrotið réttmætt? Eða er það einfaldlega þannig að það var erindi mannsins en ekki árangur hans sem ræður réttmætinu? Getur ekki verið að þar hafi einfaldlega óréttmæt aðgerð haft ánægjulegar afleiðingar, rétt eins og réttmætar aðgerðir geta haft ýmsar slæmar afleiðingar?