S umir framsóknarmenn hafa af einhverjum ástæðum mikinn áhuga á að útrýma flokknum. Einn þessara framsóknarmanna er starfandi utanríkisráðherra, en Valgerður Sverrisdóttir kaus um helgina að koma þeirri skoðun sinni á framfæri – óbeint að vísu – að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Þessi þráhyggja nokkurra framsóknarmanna hefur þegar kostað flokkinn um helming stuðningsmanna sinna og segja má að lokaátakið sé hafið hjá Valgerði og öðrum ámóta hollum flokksmönnum.
|
Evran átti að jafna sveiflur og samhæfa hagkerfi, en að sögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafa sveiflurnar haldið áfram. |
Ýmsir hafa verið þeirrar skoðunar, bæði innan Framsóknarflokksins og utan, að Ísland ætti að kasta krónunni og taka upp evruna. Þetta á að vera allra meina bót og gott ef ekki tiltölulega einfalt og þægilegt í framkvæmd. Það vekur þess vegna athygli, og ætti að verða slíkum mönnum umhugsunarefni, að í nýrri skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er talað um að hin sameiginlega mynt standi frammi fyrir togstreitu vegna stöðugrar sundurleitni hagvaxtar og verðbólgu innan aðildarlandanna.
Helstu forsvarsmenn evrunnar segja aðlögun á evrusvæðinu hafa verið hægari en þeir gerðu ráð fyrir og að samhæfing sé ófullnægjandi. Fjármálaráðherrarnir þurfi að vinna nánar með Seðlabanka Evrópu og munur á verðbólgu og hagvexti innan evrusvæðisins valdi því mögulega að erfiðara verði fyrir ríkin að halda saman ef núverandi efnahagsbati fjari út. Í skýrslunni kemur fram að sveiflurnar í hagkerfinu, sem evran átti að jafna út, hafi haldið áfram.
Að sögn The Wall Street Journal er í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar bent á að verðlag og laun hafi aðlagast of hægt við upptöku evrunnar. Laun hefðu þurft að lækka til að draga úr atvinnuleysi og verð hafi verið of ósveigjanlegt. Þá varar framkvæmdastjórnin þá sem vilja sækja um aðild að hinni sameiginlegu mynt við því að upptaka evrunnar muni ein sér hvorki halda aftur af vöruverði né ýta undir hagvöxt.
Þarna talar framkvæmdastjórnin af biturri reynslu síðustu átta ára. Evran hefur ekki reynst það töframeðal sem sumir ætluðu þó að það sé ekki heldur tímabært að spá myntkerfinu falli. Það má vel vera að evran verði notuð áfram um ókomin ár, en það er fátt sem styður þá óskhyggju sumra framsóknarmanna og fáeinna annarra að evran leysi einhvern vanda.