U pp er kominn mikill vandi og heyrst hefur að ungir femínistar séu að vígbúast og ætli að láta til sín taka svo um munar. Þær munu ætla að beita sér af hörku uns tekist hefur að vinna bug á ranglætinu og koma í veg fyrir að kynbundinn launamunur verði látinn viðgangast. Vandinn að þessu sinni liggur í launum rafiðnaðarmanna, nánar tiltekið í hópi þeirra sem lokið hafa sveinsprófi. Í ljós hefur komið að þar hefur annað kynið hærri laun en hitt svo munar hvorki meira né minna en18%. Þetta er að mati ungra femínista, og annarra þeirra sem hafa látið sig launamun kynjanna varða, óþolandi ranglæti.
Þess vegna munu ungir femínistar og aðrir álíka ekki láta það hindra sig í mótmælunum að það eru konur sem hafa hærri launin en karlarnir þau lægri. Prinsippafstaða mun ráða í þessu eins og öðru og ranglætið er jafn óviðunandi þegar karlar verða fyrir barðinu á kynbundna launamuninum og þegar hann bitnar á konum. Eða hvað? Ætli femínistarnir, leiðarahöfundarnir og aðrir, sem nötra af reiði þegar einhver könnunin virðist benda til að konur hafi lægri laun en karlar, reiðist minna nú þegar virðist halla á karlana? Eða ætli þeir viðurkenni loks að svona tölfræði er oftast lítils virði?
Í gær var töluverður æsingur á Alþingi vegna mikils tjóns á nokkrum blokkum í eigu ríkisins á flugvallarsvæðinu í Keflavík. Skiljanlegt er að þingmenn taki því illa þegar fjármunir ríkisins fara til spillis og full ástæða til að þeir geri athugasemdir ef þeir telja ráðherra bera einhverja ábyrgð á skaðanum. Það væri hins vegar betra ef oftar heyrðist í þingmönnum þegar ástæða er til að ætla að opinbert fé hafi farið í súginn eða sé á leið þangað.
Það þarf ekki mikið hugmyndaflug ef menn sitja á Alþingi með eyrun opin til að koma auga á sóun með almannafé. Nánast daglega eru þar afgreidd frumvörp sem fela í sér mikil og óþörf útgjöld og svipaða sögu er að segja um þingsályktanir. Og ekki má gleyma fyrirspurnunum sem lagðar eru fram til að þrýsta á ráðherra um að auka útgjöld ríkisins. Í þessum tilvikum er iðulega um mun hærri fjárhæðir að ræða en þær sem ætla má að muni tapast á flugvallarsvæðinu. Með þessu er ekki verið að leggja það að jöfnu að glata fé vegna hugsanlegs sinnuleysis annars vegar og vegna sérstakrar ákvörðunar hins vegar. En það má líka spyrja hvort sé verra að hafa fé af skattgreiðendum vegna sinnuleysis eða vitandi vits. Og þegar upphæðirnar eru jafn ólíkar og stundum er raunin, til dæmis ef borið er saman tónlistarhús eða jarðgöng fyrir milljarða króna og skemmdir á blokkum fyrir brot af þeirri fjárhæð, þá er ástæða til að efast um að allir þeir sem æstastir voru yfir blokkunum í gær hafi í raun mestar áhyggjur af upphæðunum.